135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[19:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er rétt að taka það fram svo að athugasemdir mínar og aðfinnslur valdi ekki misskilningi að við í Frjálslyndum styðjum að sjálfsögðu þetta frumvarp. Það er vísir að því að laga örlítið kjör þeirra sem lakast eru settir. Sá sem hér stendur hefur iðulega bent á þessa hópa í umræðu um það sem ég hef kallað að tryggja fólki lágmarksafkomu, lágmarkslífeyri, lágmarksrauntekjur, reyndar eftir skatta. Samspilið í því hvernig fólk kemst af í þessu þjóðfélagi byggist annars vegar á því að fólk hafi tekjur, hvort sem það eru atvinnutekjur eða tekjur frá Tryggingastofnun. Það hefur tekjur úr lífeyrissjóðum sínum, úr séreignarsparnaði eða fjármagnstekjur ef það hefur einhverjar tekjur. Endapunkturinn er þó alltaf það sem við þurfum að horfa á en það eru rauntekjur þess fólks sem um er að ræða. Við viljum að allir sem lifa með okkur í þjóðfélaginu, einnig þeir sem lakast eru settir, komist af á lágmarksrauntekjum sínum. Þar spilar skattkerfið óneitanlega inn í. Þess vegna höfum við, þingmenn Frjálslynda flokksins, rætt um það og flutt sérstakt mál um það. Við viljum fá sérstakan persónuafslátt sem einkum kæmi þeim til góða sem lægstar hafa tekjurnar. Það er einfaldlega vegna þess að við viljum að allir séu tryggðir þannig að þeir hafi að minnsta kosti lágmarkstekjur sér til framfærslu.

Þrátt fyrir að lagfæra eigi nú stöðu þeirra sem eru með engar eða mjög litlar tekjur út úr lífeyrissjóði þá náum við samt ekki að tryggja að samanlagðar tekjur, annars vegar úr almannatryggingakerfinu og hins vegar lágmarkstekjur, 25 þús. kr. sem mönnum eru tryggðar í gegnum lífeyriskerfið, dugi til þess að tryggja mönnum lágmarksframfærslu. Við náum því ekki þó að hér séum við vissulega að stíga skref í þá átt að bæta kjör þeirra sem lakast eru settir.

Ég sagði í andsvari áðan að ég teldi að ekki væri verið að fara þá leið sem við hefðum verið að feta okkur í átt til á undanförnum mánuðum og árum við breytingar á tryggingakerfinu. Stjórnarandstaða síðasta kjörtímabils, Samfylking, Frjálslyndir og Vinstri grænir, mótaði þá stefnu að taka upp sérstaka lífskjaratryggingu í einu sameiginlegu máli. Þá var lagt út af því hverjar rauntekjurnar væru og hvað fólk þyrfti sér til framfærslu. Það var útgangspunkturinn. Það er auðvitað tvennt sem spilar þar inn í, annars vegar eru það skerðingarreglurnar á bætur frá Tryggingastofnun sem aldraðir eða öryrkjar eiga að fá, þeir sem hafa jafnvel verið öryrkjar alla sína ævi og hafa þar af leiðandi aldrei greitt í lífeyrissjóð eða eignast einhver réttindi. Því miður er það enn þá svo að fjölmargir bændur, sennilega einkum konur, sem eiga afar lítil réttindi í lífeyrissjóði. Það á reyndar einnig við um heimavinnandi húsmæður sem störfuðu heima lengst af ævi sinni og hafa sáralítil réttindi. Maður veit auðvitað um fjölmargt gamalt fólk á stofnunum í dag sem fær örfáa þúsundkalla út úr lífeyrissjóðnum sínum. Því miður er það enn þá svo.

Þess vegna finnst mér, hæstv. forseti, að þó að þetta mál sé vissulega til bóta og verið sé að reyna að lagfæra stöðu þeirra sem lakast eru settir, þá hefði átt að stíga skrefið lengra þannig að bæturnar mundu ekki skerðast. Við erum þegar búin að setja lög um að þeir sem orðnir eru 67 ára mega hafa 100 þús. kr. í atvinnutekjur án þess að fá skerðingar á bótum. Þeir sem eru orðnir 70 ára og eldri mega hafa eins góðar tekjur og þeir vilja og mögulega geta haft án þess að fá neinar skerðingar á bótum. Við erum núna með frumvarp í þinginu um að öryrkjar megi hafa 100 þús. kr. í tekjur án þess að fá skerðingar á bótum. Hér erum við að taka á þeim hópi sem er kannski lakast settur. Við ætlum að fara með þetta inn í lífeyrissjóðina og viðhalda þeirri reglu að upphæðin sem kemur út úr lífeyrissjóðunum skerði bæturnar um 35%. Mér finnst þetta stangast á við það sem við höfum verið að gera þegar við höfum verið að búa til frítekjumark. Við erum búin að afnema skerðingu varðandi séreignarsparnað. Við erum búin að afnema skerðingu á lágmarkstekjum upp að 100 þús. kr. á mánuði, bæði fyrir öryrkja og aðra. Síðan er sérstaka 70 ára reglan sem Sjálfstæðisflokkurinn kom með inn í þingið fyrir ári síðan eftir alþingiskosningar um að 70 ára og eldri megi hafa eins miklar tekjur og þeir vilja án þess að til skerðinga komi. Það er því ákveðið stílbrot í því að þessi litla upphæð sem ætlað er að hífa upp þá sem lakast eru settir skuli áfram valda skerðingu á tekjutryggingunni. Mér finnst þetta ekki í samræmi við þá stefnu sem við höfum verið að vinna á undanförnum árum. Ég skora á ríkisstjórnarflokkana að skoða í fullri alvöru að breyta þessari reglu til samræmis við lög hvað þetta varðar en ekki að hafa þessa einu greiðslu þannig að hún leiði til fullrar skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það væri rauntekjuhækkun fyrir þetta fólk þó að það borgi síðan tekjuskatt af launum sem dugar því ekki til framfærslu. Persónuafslátturinn er ekki nógu hár þannig að fólk sé skattlaust af lágmarkstekjum sem ætlað er að dugi til framfærslu.

Þetta er staðan, hæstv. forseti. Þeir sem svona er ástatt fyrir eiga auðvitað ekki margra kosta völ. Flest af þessu fólki þarf annaðhvort að njóta stuðnings vina og ættingja eða að leita félagslegrar aðstoðar hjá bæjarfélögum til að komast af. Við í Frjálslynda flokknum viljum að menn stígi skrefið áfram í þá átt sem hér var hafið í tíð síðustu stjórnarandstöðu og ríkisstjórnin hefur vissulega unnið að því að setja frítekjumark varðandi tekjur í lög. Búið er að setja frítekjumark á öllum sviðum, þ.e. varðandi atvinnutekjur öryrkja, eldri borgara, séreignarsparnaðinn, afnema tengingar við tekjur maka o.s.frv. Þetta er það eina sem út af stendur. Þarna erum við að tala um að reyna að hífa upp stöðu þeirra sem lakast eru settir. Mér finnst, hæstv. forseti, að þetta skref eigi að stíga og breyta þessu frumvarpi í þá veru að þær bætur sem fólk fær út úr lífeyrissjóðum sínum, sem eru aðeins 25 þús. kr. eða minna, valdi ekki skerðingu á bótum Tryggingastofnunar. Þetta er einföld lagabreyting og auðvitað kostar hún fjármuni eins og allt sem við gerum í tryggingabótakerfinu en ég tel að það eigum við að gera. Ég ítreka að þetta mál er vissulega til bóta fyrir þá sem ekkert hafa og lakast eru settir í kerfinu en það er hægt að halda sig við þann stíl, vil ég leyfa mér að segja, sem búið er að mynda varðandi frítekjumörkin og séreignarsparnaðinn og tekjutengingu maka. Þessi greiðsla á heldur ekki að verða til skerðingar.