135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[19:22]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu og tel að hún sé af því góða. Ég hvet til þess að við höldum áfram að rannsaka sameiginlega nytjastofna og styrkjum meira og betra samstarf við nágrannaþjóðir okkar á sem flestum sviðum, til dæmis hvað varðar fiskstofna og nýtum aðra möguleika. Ekki væri verra að þetta tengdist því að verkefnalítill floti á Íslandi fengi aukin verkefni út á þetta aukna samstarf og ég hvet til þess að við leggjum okkur fram um að stuðla að því að þessar rannsóknir verði sem bestar. Betur sjá oft augu en auga og það á kannski við um okkar vísindamenn hjá Hafrannsóknastofnun að með þátttöku annarra vísindamanna frá öðrum löndum gæti vel verið að ýmislegt skildist betur og vinnubrögð yrðu kannski faglegri en við horfum upp á hjá til dæmis Hafrannsóknastofnun sem einblínir á svokallað togararall og notar það eitt og sér til þess að mæla vísitölu stofna. Það er, að mínu mati, eins og hefur oft komið áður fram, ekki nothæft eitt og sér.

Ég hef væntingar til þess að þetta verði til þess að við áttum okkur betur á lífríkinu, viðurkennum ákveðnar staðreyndir sem við gerum ekki, eins og að það eru margir þorskstofnar við Ísland. Það eru án efa nokkrir þorskstofnar við Grænland líka og Færeyjar. Með DNA-rannsóknum hafa menn komist að þessum niðurstöðum. Síðan þegar við höfum þessa vitneskju, að það liggur fyrir að það eru margir þorskstofnar til, þá er auðvitað léttara að fylgjast með göngu ákveðinna stofna yfir til Færeyja, yfir til Noregs, yfir til Grænlands, suður í höf og út um allar trissur. Þetta er þess eðlis að okkur vantar meiri og betri upplýsingar. Við þurfum að vita meira. Við vitum ýmislegt en förum kannski stundum illa með þá vitneskju sem við höfum, eins og að halda að við getum verið með fiskveiðistjórnarkerfi og gerum ráð fyrir því að þorskstofninn sé ein tegund, einn stofn og úthlutum þess vegna kvóta í einn stofn. Ég er alveg sannfærður um að með aukinni vitneskju og þekkingu muni menn hætta þessum aðgerðum og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu með hliðsjón af þessari vitneskju. Við höfum ekki borið gæfu til að gera það eða að við höfum ekki horft upp á að íslenskir vísindamenn svokallaðir noti þessa aðferðafræði og bendi á þetta til þess að leiðrétta kúrsinn í fiskveiðistjórn, að benda á að um marga stofna er að ræða og þess vegna þurfi að haga veiðum með allt öðrum hætti og stjórn fiskveiða með allt öðrum hætti en við höfum gert.

Ég vonast til þess að þetta muni opna augu fleiri aðila og í samstarfi við útlenda sem eru ekki jafnfastir í einhverju kerfi, þ.e. veiðistjórnarkerfi, heldur horfa á hlutina miklu meira faglega og taka þessa hluti eins og þeir eru burt séð frá því hvaða pólitískur vilji er hjá stjórnmálamönnum fyrir stjórn veiða og öðru í þeim dúr. Þeir eru sjálfstæðari, sérstaklega danskir og færeyskir fiskifræðingar en nokkurn tíma íslenskir fiskifræðingar sem oft og tíðum að manni finnst séu deild í ákveðnum stofnunum, hjá ákveðnum klíkuhópum. Ef búið væri til skipulagsrit hefur maður oft og tíðum haldið að þeir væru partur í ákveðnum stofnunum sem þeir ættu að vera undir ákveðnum aðilum. Svo ég tali bara skýrt þá hefur manni stundum fundist að áhrif LÍÚ á Hafrannsóknastofnun séu allt of mikil og þeir ráði gjörðum Hafrannsóknastofnunar allt of mikið, áhersluatriðum um hvernig vísindastarfið er stundað og hvað miklir peningar fari í ákveðin verkefni og hafi þar af leiðandi óæskileg áhrif enda er æðioft svoleiðis. Í stjórn Hafrannsóknastofnunar á Íslandi eru fimm menn og oft hefur maður haldið að að minnsta kosti þrír af þessum fimm stjórnarmönnum væru beintengdir LÍÚ, einn skipaður af ráðherra á hverjum tíma, einn af LÍÚ og svo einn af Fiskifélagi Íslands, en LÍÚ ræður að töluverðu leyti hvað gert er þar, hverjir eru skipaðir og kosnir.

Þetta er svona útúrdúr í þessari umræðu. En ég fagna því að menn séu að reyna að fara einhverjar nýjar leiðir í samstarfi við þessar þjóðir og vænti þess að ýmsar staðreyndir og upplýsingar verði nýttar og að við nýtum okkur þessar upplýsingar með hag þjóðarinnar, heildarinnar, þ.e. höfum heildarhagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni einhverra fárra útvaldra.