135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[19:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Tillagan sem við ræðum hér á rætur sínar að rekja til þess að á fundi Vestnorræna ráðsins í Nuuk á Grænlandi síðasta sumar var lögð fram ályktun um að reyna að efla samstarf ríkjanna með reglubundinni samvinnu um stofnstærðarrannsóknir helstu nytjastofna, einkum þeirra sem sameiginlegir geta talist. Enn fremur að rannsaka betur orsakasamhengi milli stofnstærða annars vegar, umhverfisþátta, afráns og veiða hins vegar og koma á skilvirkri upplýsingagjöf milli landanna um útbreiðslu fiskstofna og sjávarspendýra.

Tillagan er ansi víðtæk enda full ástæða til vegna þess að það er þetta samspil sem ræður því að langmestu leyti hvernig fiskstofnar okkar komast af, hvernig þeim tekst að vaxa, hversu mikil afföll verða á stofnunum vegna afráns og þess að önnur dýr leggja sér viðkomandi stofna til munns en þar sé ekki alltaf eingöngu horft á veiðar mannsins þó að vissulega þurfi þær að vera inni í myndinni.

Það er samt orðið afar nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á nýtingu náttúrunnar og samspil dýrastofnanna í náttúrunni sem a.m.k. sá sem hér stendur telur að hafi í raun og veru miklu meiri áhrif en við almennt höfum gert okkur grein fyrir á það að stofnar ýmist hníga eða rísa eða vaxa. Síðast en ekki síst er auðvitað sjávarhitinn og straumafarið sem allt er miklum breytingum undirorpið og það er auðvitað það sem við erum að sjá og upplifa að straumakerfið í hafinu er engan veginn eins frá ári til árs og hitafarið ekki heldur.

Við Íslendingar höfum kannski tekið mest eftir þessu á undanförnum árum að því er varðar loðnuna, sem hefur greinilega hagað sér talsvert öðruvísi á síðustu árum, einkum eftir að sjór hlýnaði verulega hér við land fyrir tæpum áratug. Enn er hlýsjór við ströndina sem við sjáum mjög vel í því að þorskurinn heldur sig nánast allan ársins hring að stórum hluta á grunnsævinu innan 12 sjómílna eða jafnvel innan flóa og fjarða í miklu meira mæli en fyrir nokkrum árum. Dæmi um þessa breytingu er að þegar hið svokallaða togararall var hannað á árunum 1984 og 1985, og sá sem hér stendur tók þátt í því, þá var hamast við að setja út togin á grunnslóðinni þannig að þau væru sem allra lengst frá landi. Þau voru sett út í skápana nánast eins utarlega í viðkomandi hólf og nokkur tök voru á af okkur skipstjórnarmönnum.

Hvers vegna gerðum við þetta? Það var auðvitað vegna þess að rallið fer fram að öllum jafnaði í marsmánuði á hverju ári og þá var það reynsla okkar sem stunduðum þessar fiskveiðar á árunum 1970–1980 að strandsjórinn var orðinn kaldur, meira að segja mjög kaldur og svo kaldur að þegar maður kom siglandi sunnan af Selvogsbanka í marsmánuði — vegna þess að það var kannski lítill og enginn fiskur fyrir vestan vegna þess að það var orðið svo kalt í hafinu — og sigldi norður yfir Kolluálinn og yfir Breiðafjörðinn og þegar maður nálgaðist Látrabjargið hrundi sjávarhitinn úr 4 eða 5 gráðum og niður í mínus og var mínus alla leiðina fyrir Látrabjarg og fyrir alla núpa þar til við komum í höfn á þeim stað á Vestfjörðum sem við vorum að sækja til. Hvaðan kom þessi kuldi? Jú, hann kom af veðurfarinu á ströndinni. Þetta var strandsjórinn sem menn komu inn í sem var svona kaldur á þessum árum og þess vegna var enginn fiskur sem neinu nam nærri landinu. Þar af leiðandi settu menn út togararallið af þeirri reynslu sem þeir byggðu á þá.

Ef menn væru að setja út togararall í dag miðað við hitann undanfarin tíu ár og hegðun fisksins hefðu þau troll sem sett voru út á grunnslóðinni alveg örugglega verið sett út með allt öðru hugarfari og með allt annan grunn að baki en gert var á þessum árum, vegna þess að veiðireynslan á grunnslóðinni undanfarin ár hefur verið sú að þar hefur verið miklu meiri fiskur. Reyndustu menn eins og Magnús í Tungu á Tálknafirði sagði mér fyrir tveimur dögum að síðustu tvö eða þrjú ár hefði fiskurinn að jafnaði verið mun stærri en hann var árin þar á undan. Hann þakkaði það m.a. hlýindunum sem verið hafa og því að fiskurinn hefur haldið sig meira á grunnslóðinni og innan 12 mílna. Þar af leiðandi er fiskmunstrið með allt öðru sniði en það var fyrir 30, 40 árum. Það er bara bláköld staðreynd að svona er þetta. Og ef við ætlum að mæla staði sem við settum út fyrir 30, 40 árum síðan í allt öðru umhverfi og allt öðrum sjávarhita, værum við auðvitað að mæla allt annan hlut og ekki í neinu samræmi við það sem lífið býður upp á í hafinu í dag.

Þetta sýnir okkur að það er afar nauðsynlegt fyrir okkur að endurskoða fræðin, við höfum verið verulega fastir í því á undanförnum árum að hægt væri að fara í sömu bremsuförin og fyrir 40 árum síðan og þar ætti bara að vera fiskur. Það er auðvitað ekki hægt og fiskifræðingar verða að átta sig á því að það er ekki hægt að mæta í þessi bremsuför og taka sama fisk og maður tók fyrir 40 árum við allt önnur lífsskilyrði í hafinu. Menn eru því miður algjörlega fastir í þessu. Ég vona að með því að opna samstarf við aðrar þjóðir í kringum okkur sem hugsa hlutina öðruvísi en við, verði kannski hægt að ýta fiskifræðingunum út úr bremsufarinu sem þeir eru í til þess að fara að fást við hlutina með öðru hugarfari.

Ég held að það sé afar nauðsynlegt, hæstv. forseti, að brjótast inn með aðra hugsun og aðra sýn en við höfum verið föst í á Íslandi á undanförnum árum. Ég heyri það á flestum sjómönnum sem ég hef rætt við á þessari vertíð, og ræði ég við marga, að þeir eru sammála um það nánast allt í kringum land að það sé mun meira af stórfiski við landið núna — það kom reyndar fram í netarallinu m.a. fyrir Norðurlandi — en menn hafa séð undanfarin ár. Passar það vel við reynslu tæplega áttræðs skipstjóra vestur á Tálknafirði, Magnúsar Guðmundssonar frá Tungu, sem er einhver reyndasti og athugulasti maður sem ég hef rætt við um fiskveiðar og fiskveiðisögu og er í raun og veru hafsjór af fróðleik.

Veiðikerfin í þessum þremur löndum, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi, eru mjög ólík. Við erum með kvótakerfi, magnkerfi, vegna þess að við erum alltaf að passa upp á að veiða ákveðin kíló. Við getum jafnvel fengið allt aðra aflasamsetningu að landi en veiðist á miðunum, þó að það eigi ekki alltaf við og sé breytilegt og það eru margar ástæður fyrir því að sá breytileiki er í veiðikerfi okkar. Það er auðvitað geysilega hátt verð á leigukvótum og það eru mjög takmarkaðir kvótar, eins og t.d. núna þar sem þorskkvótinn er aðeins 130 þús. tonn og kallar á þá hegðun hjá fiskimönnum að leita með logandi ljósi alls staðar þar sem stærsti þorskurinn er og sækja í hann, eðlilega, en ýtir mönnum líka til að horfa á það að fiskurinn sem er 1,5 kíló borgar ekki leiguverðið og það er vafasamt að hann komi að landi á stundum.

Færeyingar eru með sóknarkerfi í sínum veiðum, skipt upp í svæðaskiptar veiðar milli hinna ýmsu flotagerða og stjórna veiðunum eingöngu með dagakerfi sem hefur að hluta til verið framseljanlegt en þeir hyggjast taka allan framseljanleika úr þannig að menn verði eingöngu með nýtingarkerfi, þ.e. að menn fái daga og geti nýtt þá til veiða, punktur. Ég held að við þyrftum í raun og veru að gera það sama hér, hvort sem við notum kvótakerfi eða annað kerfi, sem gerði það að verkum að veiðikerfið væri nýtingarréttur, að þeir sem fá úthlutað aflaheimildum í dögum eða svæðum skuli sækja verðmætin og þann forgang sem þeim var veittur með því að stunda fiskveiðar en ekki með því að setjast niður og liggja á heimildunum þangað til þeir geta pínt einhverja aðra til að leigja þær á ofurverði. Það er talsvert um það í okkar kerfi og gefur oft afar ranga mynd af því hvernig eðlilegar fiskveiðar gætu gengið fyrir sig.

Við Íslendingar erum dálítið fastir í þessum slæmu bremsuförum sem við völdum okkur og fylgja m.a. kvótakerfinu og þeirri hugsun: Þetta er „titturinn minn“ sem syndir þarna niðri og hann er tekinn frá okkur ef einhver annar veiðir hann. Færeyingar hafa ekki innleitt þessa hugsun og ekki Grænlendingar heldur. Grænlendingar eru með tvískipt veiðikerfi, annars vegar þorsk innan skerja, eins og þeir orða það, hann er ekki takmarkaður við magn, menn mega veiða þorsk í Grænlandi innan skerja án magntakmarka, og hins vegar með kvóta sem þeir nýta sjálfir að hluta en leigja Evrópusambandinu að hluta og öðrum þjóðum ýmsan veiðirétt. Þeir þurfa á því að halda, Grænlendingar, að fá frystiskipin í firðina sína til að taka við smábátaaflanum á sumrin þegar ísa leysir vegna þess að það eru ekkert endilega vinnslustöðvar í öllum fjörðum Grænlands. Þessi frystiskip sem vinna þorsk við Grænland fá stundum veiðiheimildir í staðinn sem nokkurs konar afgjald fyrir að liggja í fjörðunum og vinna fisk frá smábátunum yfir sumartímann. Veiðikerfin eru því mjög ólík.

Þetta sýnir okkur að lífríkið er mjög breytilegt og fjölbreytt og það sama á ekki við alls staðar. Útbreiðsla þorsksins og tilfærsla hans er miklu meiri en menn vilja viðurkenna hér á landi. Það er algjör misskilningur að miðin við Ísland séu fiskabúr. Þorskurinn fer yfir til Grænlands þegar svo ber við og hann hefur gert það rækilega á undanförnum árum, hóf þær göngur verulega í kringum árið 2001–2002 þegar hér ríkti suðaustanátt nánast heilt haust og þá byrjaði allt í einu að fiskast þorskur við Austur-Grænland vegna þess að hitaskilin lágu mjög utarlega, norðarlega og norðvestarlega og tveggja, þriggja ára gamall fiskurinn úr köntunum hjá okkur við Víkurál og Hala færðist langt í norðvestur. Hann ólst þar upp að miklu leyti og hefur núna tekið upp sína gömlu hegðun að ganga hér til hrygningar á vorin og til baka aftur á sumrin. Menn hafa orðið varir við hann á djúpslóðinni milli Íslands og Grænlands nokkur undanfarin ár sem ekki var áður á svokallaðri Hampiðjuslóð eða grálúðutorgi á 300, 400, 500 faðma dýpi þar sem stórfiskur gengur hér inn í átt að grunnunum snemmvetrar til að finna sér skilyrði til hrygningar. Þorskurinn hefur það innbyggt í sér svipað og laxinn að hann leitar til heimahaganna svo framarlega sem hann hefur afl til þess og hefur fengið næga fæðu til að leggja í það ferðalag og skilyrðin sem hann leitar að séu í lagi. Á sama átt leitar hann aftur að miklu leyti til Grænlands þegar hann er búinn að hrygna hér við land. Það er í rauninni mjög ánægjulegt að það skuli vera að gerast núna síðustu tvö árin því að það hefur verið fæðuskortur á Íslandsmiðum vegna þess að loðnan hefur verið í lágmarki. Sandsílið var einnig í lágmarki þó að það kæmi verulega upp seinni part sumars hér við land eins og sjá mátti á kríunni sem var að verpa jafnvel seinni partinn í júlí og var enn þá með rétt fleyga unga í byrjun október. Krían veit alveg hvenær hún á að verpa, hún verpir þegar hún fær æti. Það er þannig með allar dýrategundir að þær færa sig eftir ætinu, menn þurfa ekki að stunda flókin náttúruvísindi til að átta sig á því. Gæsin kemur hingað á vorin og hvað gerir hún? Hún étur stanslaust af túnunum þangað til hún finnur sér hreiðurstæði. Þetta er sameiginlegt með öllum dýrastofnum að finna sér æti og sækja það.

Ég tel afar nauðsynlegt að við aukum samstarf okkar við Grænlendinga og Færeyinga á rannsóknum á þorski, grálúðu og karfa sem eru í raun og veru sameiginlegir stofnar þar sem þessir stofnar eru umhverfis Ísland og í lögsögu þeirra beggja og færa sig til og flakka eftir aðstæðum í hafinu. Hér er því eftir miklu að slægjast, hygg ég, fyrir utan það að ég vænti þess að viðhorfin sem ríkja í Færeyjum og Grænlandi geti orðið til þess að taka okkur svolítið upp úr bremsuförunum hér á landi að því er varðar fiskrannsóknir og viðhorf fiskifræðinga til þess hvernig fiskstofnar komast af og hvað skiptir máli. Það eru ekki bara veiðarnar sem skipta máli, það er svo fjöldamargt annað, sjávarhitinn, straumarnir, útbreiðslan og fæðið, sjávarspendýrin o.s.frv. Með hlýnandi sjó höfum við svo fengið inn einstaka stofna sem eru búnir að leggja undir sig svæði nánast allt í kringum landið. Það hefði nánast þótt feigðarboði ef menn hefðu fengið skötusel í Húnaflóa fyrir svona 40 árum því að hann var ekki þekktur þar en hann veiðist þar í dag vegna þess að sjór hefur hlýnað. Skötuselurinn er líka sérhannað veiðitæki, það er hægt að líkja honum við mink, held ég, hann liggur á botninum og dinglar hausugganum þangað til einhver fiskur syndir fyrir framan kjaftinn á honum og þá étur hann hann. Hann er líka kraftmikill í því að taka til sín smáfiskinn á grunnslóðinni við Ísland. Ég skil reyndar ekki hvers vegna mönnum datt í hug að setja skötuselinn í kvóta, ég held að það hafi verið einhver mesta vitleysa sem mönnum hefur dottið í hug hér á landi en það er eftir öðru. Menn hugsa alltaf: Þetta er „titturinn minn“ sem einhver annar veiðir. Við erum búin að flækja kvótakerfið miklu meira en nauðsynlegt er með því að festa okkur í svona rugli, hæstv. forseti, og það er mikil ógæfa ef við ætlum ekki að komast út úr því. Ég vona að raunverulegir veiðimenn eins og Grænlendingar og Færeyingar geti leiðrétt kúrsinn með okkur og að þetta samstarf sem við erum að sækjast eftir verði til þess að menn sjái að hér er um að ræða lifandi náttúru sem er mjög breytileg og það þýðir ekkert að setja sig í bremsuförin og mæla á staðnum hvort þar var fiskur fyrir tíu árum og hvort hann sé þar ekki enn.