135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[19:58]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur nú opnað á það að fleiri aðilar ættu að koma að hafrannsóknum en Hafrannsóknastofnun Íslands og það er auðvitað vel.

En nota bene, það verður að taka með í reikninginn líkan og að setja upplýsingar inn í líkön. Líkön eru ekki nauðsynleg til þess að fá bestu vitneskju um það hvort lítið eða mikið er af fiski í sjónum, hvort hann er að aukast eða minnka. Það er ekki nóg. Og þrátt fyrir að menn hafa sett meiri peninga í svokallað togararall þá er það bara til að fjölga togum en ekki til þess að auka þekkinguna að öðru leyti. Þá á ég við að taka línubáta sem viðmið, hvernig gengur hjá þeim? Hvernig gengur hjá netabátum? Það er netarall, en það er ekki notað. Það er ekki farið eftir því og öðru í þeim dúr.

Þegar við tölum um þetta, þ.e. stjórn fiskveiða, þá er svo margt að og að hluta til eru vísindamennirnir okkar að þjónka ákveðinni klíku sem ræður allt of miklu í íslenskum sjávarútvegi, sem hefur náð að mylja undir sig allan fiskveiðikvótann á Íslandi. Fiskveiðikvóta sem er þúsund milljarða virði er búið að afhenda ókeypis.

Því fagnar maður þessari tillögu sem gengur út á það að fara eigi að vinna með útlendingum, mönnum sem eru óháðir og ótengdir svona hagsmunatengslum eins og okkar vísindamenn eru. Séreignarréttur á fiskinum í sjónum er náttúrlega það fáránlegasta sem til er. Að halda að það gangi eitthvað betur þannig er auðvitað hin mesta (Forseti hringir.) vitleysa sem haldið hefur verið fram í Íslandssögunni.