135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:05]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki svo að sóknarstýring sé með öllu alvont kerfi. Það er langt í frá. En það sóknarkerfi sem ég gæti þó í það minnsta hugleitt væri byggt á séreignarréttinum. Ég held að sóknarkerfi byggt á þeim aðferðum sem við höfðum hér á árum áður þar sem allir gátu farið að veiða endi auðvitað bara með því að við þurfum að takmarka það mjög hvenær menn geta beitt sínum skipum og haldið þeim til hafs. Ég man það bara sjálfur sem drengur norður á Siglufirði hvernig aflameðferðin var í þeim keppnisveiðum og ekki eru eftir hafandi lýsingar á meðferðinni á þeim afla.

Það sem skiptir máli hérna er að við náum að tvinna saman þekkingu sjómannanna, þekkingu þeirra á hafinu og lífríkinu og störf vísindamannanna. Það er grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði líka að halda áfram að þróa áfram okkar fiskveiðistjórnarkerfi til að aðlaga það jafnt og þétt og betur að þeirri þekkingu sem við höfum á lífríki hafsins. Þetta eru grundvallaratriði málsins.

Ég tel að það hafi sýnt sig hjá okkur Íslendingum að sú grunnhugsun að hafa séreignarrétt á nýtingarréttinum hafi skilað árangri. Það er nóg að horfa á niðurstöður fiskveiðanna á Íslandi síðastliðin fimmtán ár eða svo, þ.e. afkomu útgerðarinnar, til þess að átta sig á því að þrátt fyrir þann niðurskurð sem við höfum mátt búa við þá hefur kerfið að minnsta kosti verið þannig að við höfum komist í gegnum þetta. En það breytir ekki því að við þurfum meiri og betri þekkingu. Við þurfum að skilja betur samhengi veiðanna og afkomu stofnanna. Alla þessa þætti þurfum við að rannsaka. Því hljótum við að fagna þessari tillögu og styðja hana bæði með ráðum og dáð.