135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:31]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, hún hefur að mínu mati verið mjög góð. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum lýtur að því að efla samstarf milli Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga í rannsóknum en umræðan hefur kannski að meira leyti snúist um íslensku Hafrannsóknastofnunina og það er í sjálfu sér allt í lagi — ýmis sjónarmið hafa komið fram sem mér finnst full ástæða til að ræða og skoða. Það er vitaskuld rétt að hafrannsóknir eru flókin vísindi og útilokað að í þeim fræðum séu allir ætíð sammála um alla hluti, það er alveg útilokað.

Markmiðið hlýtur að vera að reyna að tryggja að íslensk þjóð hafi aðgang að bestu upplýsingum sem völ er á. Til þess að svo verði þarf að leita til allra og gefa öllum sem þekkingu hafa kost á að koma að því borði og setja fram sjónarmið sín sem að sjálfsögðu þroskar þekkinguna, þroskar umræðuna og gefur okkur sem þjóð betri niðurstöðu. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða mjög vandlega og það er því eðlilegt að umræða í tengslum við þetta mál snúist einnig um Hafrannsóknastofnun. Staðreyndin er nefnilega sú, hvort sem Hafrannsóknastofnun veður reyk eða hefur svör við öllum lífsins gátum, þegar kemur að lífríkinu neðan sjávar, að allt of mikil togstreita og vantrú ríkir milli vísindamanna og sjómanna og það bil verður að brúa.

Ég get að mörgu leyti tekið undir þau viðhorf sem fram komu hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni um að skipta Hafrannsóknastofnun að einhverju leyti upp, tengja hana háskólasamfélaginu og, eins og ég skildi hv. þingmann, dreifa stofnuninni víðar um landið. Ég held að það sé lykilatriði fyrir stofnunina að hún fái vaxið og dafnað í umhverfi sem hentar henni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það henti ekki endilega Hafrannsóknastofnun að dvelja langdvölum á póstnúmeri 101, ekki vegna þess að þar sé endilega slæmt að vera heldur miklu frekar að hún muni frekar vaxa og dafna í umhverfinu sjálfu, í greininni, í faginu. (Gripið fram í: Fara með hana til Vestmannaeyja.)

Það kæmi náttúrlega vel til álita að tilteknir þættir, eins og þorskrannsóknir, væru í Vestmannaeyjum, rækjurannsóknir fyrir vestan þannig að samskipti milli sjómanna og skipstjóra annars vegar og vísindamanna hins vegar væru nánast dagleg, menn fái daglega upplýsingar um það sem væri að gerast í sjónum. Eins og staðan er núna er farið út í einhver skipti á ári, hvort sem það er í togararall eða netarall einu sinni á ári o.s.frv., og þannig koma upplýsingarnar. Síðan eru þær vegnar og metnar en ekki í samstarfi aðila heldur kemur út úr því mati einhver niðurstaða Hafrannsóknastofnunar. Fyrir alla aðila og fyrir íslenska þjóð er afar mikilvægt að samtvinna þekkingu sjómannsins og þekkingu vísindamanna. Mitt mat er það, og hefur verið um nokkurt skeið, að leita megi betri leiða, finna betri lausnir en við búum við í dag.

Ég vil því taka undir sjónarmið margra sem hér hafa talað um að menn eigi að nálgast þetta verkefni með opnum huga. Það er alveg kórrétt sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði hér áðan, þegar kemur að jafnflókinni vísindagrein og hafrannsóknum er útilokað að allir geti verið sammála. Við þurfum því að láta umræðuna þroskast, við þurfum að kalla fram fleiri sjónarmið og ég held að besta leiðin til þess sé að efla samkeppni í þessum rannsóknum og við eigum að nálgast þá umræðu mjög opið. Í framhaldi af þeirri ágætu umræðu sem hér hefur farið fram ætti að skoða hvernig við getum bætt og lagfært hafrannsóknir á Íslandi því að öll höfum við á endanum sama markmið hvað það varðar, hvaða viðhorf sem menn kunna síðan að hafa til þess hvernig veiðunum er stjórnað.