135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[20:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða svolítið sérstakt mál. Því miður missti ég af ræðu hv. þm. Árna Johnsens vegna þess að það var fundur í heilbrigðisnefnd til að taka ákvörðun um að senda út bréf.

En ég vænti þess að hv. þingmaður, eins og aðrir sem hér hafa talað, hafi gert athugasemdir við þau lög sem í gildi eru og við nokkrir hv. þingmann flytjum breytingartillögur við. Við leggjum til breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda.

Hæstv. forseti. Það er afar nauðsynlegt að mínu viti að lagfæra þessi lög vegna þess að framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að það sem maður hefur talið að væri nokkuð tryggt og nokkuð víst, þ.e. viðurkennd eignarmörk manna á landi þar sem byggt hefur verið á þinglýstum pappírum eða samningum til margra ára, byggt á landamerkjum sem menn hafa verið sammála um að lægju milli landa sinna o.s.frv., að þau mættu halda gagnvart íslenska ríkinu, hefur ekki reynst vera þannig. Niðurstaðan hefur orðið sú í sumum þeirra mála sem ríkið hefur hafið á hendur landeigendum að það sem menn töldu að væri eignarréttur sinn í góðri trú og höfðu ekki ástæður til annars samkvæmt pappírum og gögnum sem þeir höfðu undir höndum, byggt á þinglýstum landamerkjabréfum samkvæmt landamerkjalögum frá 1882 eða 1919 eða öðrum skilmerkilegum pappírum, hefur ekki staðist. Og einkanlega einnig vegna þess að umræddir landeigendur hafa verið að gjalda ríkinu það sem ríkisins er sem afgjalds af jörðum sínum, þ.e. ríkið hefur krafið menn um skatta og eignarskatta eftir atvikum meðan þeir voru í gildi og menn hafa greitt skatta og skuldbindingar af því sem þeir hafa talið sína eign.

Jafnvel eru dæmi um að þó að ríkið sjálft hafi selt mönnum jarðir og verið aðili að samningnum þá standist það ekki heldur. Þess vegna er afar nauðsynlegt að tekið sé á þessum málum og þetta frumvarp gengur út á það að laga þessa réttarstöðu og færa hana til þess horfs að það fáist almennt viðurkennt að gögn sem menn hafa undir höndum um eign sína og landamerki standi og menn þurfi ekki að leggja til annað en löggilta pappíra að því leyti til og sérstaklega með tilliti til þess að þeir hafa jú verið greiðendur til íslenska ríkisins af eignum sínum og jörðum.

Hæstv. forseti. Ég tel því það sem hér er lagt til vera réttlætismál, að lagfæra stöðu landeigenda að þessu leyti. Ég hef stundum orðað það þannig bara með einföldum hætti að ég vissi varla hvernig menn ætluðu að vinna þessi mál ef menn gætu ekki treyst því að það sem þeir hefðu haft til margra ára sem eign sína, greitt af skatta og skyldur til íslenska ríkisins, ef það stæði ekki þá væru menn komnir út í slíkt fúafen að það fyndist enginn fastur fótur fyrir stöðunni í málinu.

Þess vegna, hæstv. forseti, höfum við lagt þetta frumvarp hér fram og ég vænti þess þótt stutt sé eftir af þingtímanum að þar sem frumvarpið er í sjálfu sér ekki flókið að efni til, aðeins tvær greinar og gildistökugreinin þriðja, þá fáist það afgreitt á yfirstandandi þingi og við lagfærum þá réttarstöðu og þá óvissu og ég vil leyfa mér að segja ósanngirni sem hefur verið í framkvæmd þjóðlendukrafna og dóma.