135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[21:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að leggja aðeins orð í belg þó að þau verði ekki mörg að þessu sinni um þetta ágæta mál um breytingar á lögum um þjóðlendur sem hv. þm. Bjarni Harðarson er fyrsti flutningsmaður að. Fyrst vil ég aðeins rifja upp söguna. Það má vera að ég muni hana ekki alveg rétt en í mínu minni voru fundaherferðirnar Á rauðu ljósi og Hver á Ísland? tvær en ekki ein. Herferðin Hver á Ísland? sem Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, stóð fyrir á árunum 1985 og 1986, ef ég man rétt, þegar hann var að rífa upp Alþýðuflokkinn og ná honum upp í 30% fylgi í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga 1987. Örlögin léku hann svo grátt að eitt kjaftshögg hér við Austurvöll á Albert heitinn Guðmundsson varð til þess að hann náði miklu flugi í stofnun Borgaraflokksins og það virtist slá Alþýðuflokkinn út af laginu í þeim kosningum. Kosningasigurinn sem var innan seilingar varð miklu minni þá en menn töldu efni standa til.

Hin herferðin, Á rauðu ljósi, var af öðrum toga. Þá fóru þeir saman, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson árið 1989 (Gripið fram í.)og voru þá í raun og veru að byrja að þoka flokkunum saman og undirbúa sameiningu flokkanna á vinstri væng stjórnmálanna. Þetta er sagan eins og ég man hana. Það má vel vera að það vanti eitthvað inn í þetta en (Gripið fram í.)ég taldi rétt að stinga þessu inn í umræðuna fyrst þessar fundaherferðir bar hér á góma.

Það er einkennilegt hvernig þetta þjóðlendumál hafa farið út af því spori sem þau voru sett á í upphafi og hefur verið vitnað til hér af fyrri ræðumönnum hvernig flutningsmenn málsins á þeim tíma ætluðu að það gengi fram. Það hefur ekki orðið og hefur orðið bændum landsins þyngra í skauti en annars hefði orðið, annars vegar vegna mikillar kröfu um sönnunarbyrði sem menn áttu ekki von á að Hæstiréttur legði á þá. Hins vegar er það vegna mikillar kröfuhörku umboðsmanna fjármálaráðherra í þessu máli. Menn hans hafa gengið fram af meiri óbilgirni en nokkrum manni gat dottið í hug á þeim tíma þegar verið var að ræða lagasetninguna í þinginu á sínum tíma. Ég man nokkuð glöggt eftir því en ég sat þá hér á þingi eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Árni Johnsen.

Ég skal svo sem ekki segja hvernig á því stendur að málin hafa farið í þennan farveg. Alla vega erum við í þeirri stöðu og þá þarf að bregðast við. Frumvarpið gerir það að mínu viti, það setur málið í þann farveg sem upphaflega stóð til og mun leiða til sanngjarnrar og eðlilegrar niðurstöðu í að úrskurða um eignarhald á landi.

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því hvernig mál hafa verið að þróast á undanförnum árum, hvernig viðhorfin hafa verið að breytast gagnvart dreifbýlinu. Kannski endurspeglast það í viðhorfi gagnvart bændum og stöðu þeirra í íslensku þjóðfélagi. Þjóðlendumálið sýnir ákveðna viðhorfsbreytingu í hnotskurn. En það er annað frumvarp sem hér er í þinginu sem er kannski ekki betra — ef það er ekki bara verra — sem lýsir viðhorfi sem kemur mjög á óvart að skuli vera sett fram af hálfu ríkisstjórnar í garð bænda og landeigenda. Það sýnir líka einkennilegan skilning á lögum. Það er frumvarpið sem hæstv. félagsmálaráðherra er með hér í þinginu um sumarhúsabyggð. Þar er beinlínis verið að leggja til með lögum að taka af landeiganda samningsfrelsi hans, frelsi hans til að gera samninga við aðila, einstaklinga eða aðra, um ráðstöfun leigu á sínu landi eða sölu eða annað slíkt. Samningsfrelsið sjálft er afnumið í frumvarpinu sem er kannski sá grundvöllur sem þjóðfélag okkar byggist á.

Í öðru lagi er tekið af landeigandanum forræði lands hans með því að setja inn í frumvarpið ákvæði um að sá sem tekur landið á leigu hafi í raun og veru öll ráð í hendi sér. Hann getur framlengt leigusamning um 25 ár og líklega eins oft og verða vill. Hann getur framleigt það sem hann á ekki þriðja aðila og tekið til sín t.d. alla verðhækkun landsins sem orðið hefur á þeim tíma sem hann hefur haft umráð yfir landinu. Landeigandinn getur mjög illa tekið landið til sín aftur sem hann á og það virðist vera að frumvarpið sé byggt á því að það sé eitthvað óeðlilegt við það að þegar tveir aðilar gera samning um leigu á landi renni samningurinn út og sá sem tók landið á leigu skili því. Grundvöllurinn að málinu er sá að það er afskaplega ósanngjarnt að sá sem tók landið á leigu skuli þurfa að sæta því að samningurinn renni út og það bara verði að bregðast við því með því að setja lög sem veiti þeim sem ekki á eignina rétt á henni. Ég spyr sjálfan mig: Á hvaða vegferð er íslensk ríkisstjórn komin þegar hún flytur frumvarp af þessum toga sem er hér í þinglegri meðferð? Umsagnaraðilar sumir hverjir hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og talið að það brjóti gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar á þrjá eða fjóra vegu.

Mér finnst að þarna endurspeglist viðhorfsbreyting sem er einhvern veginn á þann veg að ef þeir sem eru búsettir hér í þéttbýlinu eða á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki þann aðgang að landi eða nytjum landsins sem þeim líkar þá verða bara sett lög til þess að tryggja mönnum það sem þeir vilja fá. Menn þurfi ekki að hafa fyrir því að kaupa landið eða semja um afnot af því. Ég held að það sé ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur af þessari hugarfarsþoku sem skollin er á í þinginu í þessum efnum þegar menn telja það virkilega vera vandamál að samningur um leigu á landi renni út. Ég spyr: Hvenær komast menn að þeirri niðurstöðu að það væri álíka vandamál þegar samningur um leigu á íbúð rennur út, þá þurfi að setja lög sem veiti leigutakanum rétt til þess að hafa umráð fyrir íbúðinni nánast svo lengi sem hann kýs og á því verði sem hann getur sætt sig við? Þetta er alveg ótrúlegt satt að segja, virðulegi forseti, hvað menn eru komnir langt í þessum efnum. Nei, ég held að menn verði auðvitað að virða almennar leikreglur og hefðbundinn skilning á eignarrétti í þessum efnum og þetta frumvarp styður þau sjónarmið.

Ég vil líka láta það koma fram, virðulegur forseti, að ég tel ekki sjálfgefið að eignarrétturinn að landi nái til nytja sem ekki hafa verið til staðar til þessa af eðlilegum ástæðum. Til dæmis finnst mér ekki eðlilegt að landeigandi eigi jarðhita langt undir jörðinni vegna þess einfaldlega að fram til þessa hefur landeigandi aldrei getað nýtt slíka hluti. Mér finnst eðlilegt að það sé frekar skilgreint sem þjóðareign og ríkið slái eign sinni á þau réttindi núna þegar tæknin er komin á það stig að hægt er að sækja jarðhita langt niður í jörðina sem áður var ekki hægt.

Ég minni á frumvarp sem flutt var um þetta efni fyrir nokkuð mörgum árum, líklega sama þingveturinn og þjóðlendulögin voru hér í þinginu. Það var frumvarp um breytingu á stjórnarskránni einmitt í þá veru að jarðhiti sem væri neðar en 100 m undir yfirborði jarðar væri þjóðareign. Mér finnst það að mörgu leyti eðlilegt sjónarmið. Svo má líka velta fyrir sér orkunni í fallvatni sem rennur í gegnum landareign, hvort orkan sjálf eigi að vera eign landeigandans eða hvort hún eigi að vera þjóðareign. Orkan sem slík hefur ekki nýst landeiganda þann tíma sem landið hefur verið byggt en þær nytjar sem landeigandi hefur haft af vatni, rennandi vatni eða köldu — það er eðlilegt að það sé eins og verið hefur á forræði landeigandans.

Þegar nýir möguleikar skapast í þessum efnum til að nýta náttúruauðlindir sem ekki voru til staðar eða hafa verið til staðar þau 1100 ár sem landið hefur verið byggt þá finnst mér það ekkert sjálfgefið að það sé landeigandinn sem eigi það. En það sem hefur verið nytjað til þessa og er hefðbundið á að vera eins og verið hefur. Þetta sjónarmið vildi ég setja fram, virðulegi forseti, þannig að það liggi fyrir a.m.k. á þessu stigi málsins að menn þurfa að taka afstöðu til þátta eða atriða sem ekki hafa verið uppi. Þá er eins gott að menn hafi einhvern tíma velt því fyrir sér hvernig fara eigi með slíkt.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta mál nema ég ítreka stuðning minn við það og hvet þingheim til þess að afgreiða málið fyrir þingfrestun síðar í þessum mánuði.