135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

afstaða Samfylkingarinnar til hvalveiða.

[13:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í hina sérkennilegu svo ekki sé sagt einstæðu uppákomu að ráðherrar annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, sendu frá sér yfirlýsingu og lýstu sig andvíga ákvörðun landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að heimila veiðar á 40 hrefnum á dögunum. Nú er auðvitað ljóst að þessi gjörningur Samfylkingarinnar er fremur aumlegur kattarþvottur því að sjálfsögðu bera stjórnarflokkarnir báðir og meiri hluti þeirra sameiginlega pólitíska ábyrgð á verkum ríkisstjórnarinnar, á tilveru hennar, á virðingu jafnt sem vömmum. Eða heldur e.t.v. Samfylkingin að það sé hægt að eiga bara hlutdeild í vinsælum hlutum, því sem er þægilegt og gott en segja sig frá hinu?

Gagnrýni okkar, þingflokks Vinstri grænna, og andstaða, ég tala nú ekki um við að leyfa veiðar á stórhval í atvinnuskyni (Gripið fram í.) liggur fyrir og nú segist Samfylkingin andvíg þessum veiðum. Þá vaknar spurningin: Þarf ekki að fara að huga að því við hvaða þingstyrk þessi framganga framkvæmdarvaldsins styðst? Þótt til sé að verða 10 ára gömul ályktun í þessum efnum þarf framganga framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma að sjálfsögðu að vera völduð af nægilegum þingstyrk. Ef ríkisstjórnin styðst ekki við þingstyrk Samfylkingarinnar hvernig er þá staða málsins að þessu leyti? Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hann það ganga upp að ríkisstjórn hans hafi opinberlega tvenns konar stefnu í máli af þessu tagi? Kemur það til greina að utanríkisráðherra geti verið á móti málinu heima fyrir en varið það að sögn erlendis? (Gripið fram í.) Má vænta þess að fleiri dæmi komi fram á næstunni um sams konar tvíhyggju eða tvíeðli ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Telur hæstv. forsætisráðherra að það sé svona mynd af ríkisstjórn í landinu sem við þurfum helst á að halda um þessar mundir, ríkisstjórn sem getur ekki einu sinni komið sér saman um afdrifaríkt mál af þessu tagi?