135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

afstaða Samfylkingarinnar til hvalveiða.

[13:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur löngum verið vitað að það eru skiptar skoðanir um hvalveiðar meðal Íslendinga og sömuleiðis á hinu háa Alþingi og það hefur legið fyrir að innan flestra flokka eru mismunandi sjónarmið hvað þetta mál varðar. Það var ekki tekið á þessu máli í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, það var vitað að stjórnarflokkarnir tveir væru ekki á sömu línu í málinu. Málið er hins vegar á forræði sjávarútvegsráðherrans og hann fylgir þeirri stefnu sem mörkuð var í fyrri ríkisstjórn, að halda úti takmörkuðum veiðum í stuttan tíma m.a. til að halda fram rétti okkar í þessu máli gagnvart öðrum þjóðum.

Það er auðvitað óvenjulegt að annar stjórnarflokkurinn skuli lýsa sig andvígan því en að mörgu leyti er það hreinlegra en fara í felur með slíka afstöðu. Þar með liggur þetta fyrir. En eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sagt og hv. þingmaður vék að, þá er unnið hér á grundvelli ályktunar sem Alþingi samþykkti fyrir allnokkrum árum um þetta málefni. (Gripið fram í: Þarf ekki að endurskoða hana?)