135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

afstaða Samfylkingarinnar til hvalveiða.

[13:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sjaldan hefur fátæktin verið meiri í svörum frá einum forsætisráðherra, af því að það stendur ekkert um þetta í stjórnarsáttmálanum er í lagi að ríkisstjórnin sé ósammála. Á það þá almennt að verða þannig að ríkisstjórnin geti haft uppi algerlega gagnstæð sjónarmið hvað varðar framkvæmd viðkvæmra mála svo lengi sem það er ekki bannað í stjórnarsáttmálanum? Er þetta metnaðurinn sem hæstv. forsætisráðherra hefur fyrir hönd sinnar eigin ríkisstjórnar? Ég vil segja alveg eins og er að ég hef varla heyrt annað eins. Við vitum að hvalveiðar og allt sem þeim tengist vekur yfirleitt mikla athygli erlendis og það mun verða svo nú og er þegar orðið að mjög viðkvæmir hagsmunir á báða bóga eru hér í húfi. Mér finnst engan veginn boðlegt að hæstv. forsætisráðherra reyni að afgreiða málið svona og skauta yfir það svona vegna þess að þetta er ekki einskiptisákvörðun sem svo er bara liðin tíð. Nú eru veiðarnar að hefjast og verða í gangi næstu mánuði og árekstrarnir við ferðaþjónustu og umræður um þetta á alþjóðavettvangi o.s.frv. Ætlar ríkisstjórnin í gegnum þetta svona?