135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

eftirlaunalögin.

[13:42]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við fengum að heyra áðan um ágreining stjórnarflokkanna í hvalveiðimálum og það virðist að í því máli séu tvær ríkisstjórnir í landinu.

Það er líka annað mál sem er ágreiningsefni milli stjórnarflokkanna og virðist ganga illa að ná einhverri niðurstöðu í og það eru eftirlaunalögin. Þann 11. maí kom frétt í sjónvarpinu með viðtali við formann Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, sem hófst á þeim orðum að umdeild lög um eftirlaun æðstu embættismanna þjóðarinnar yrðu felld úr gildi. Þetta eru lög sem fá þennan harða dóm hjá öðrum stjórnarflokknum og fátítt er að nokkur lagasetning hafi fengið þyngri ummæli en þessi. Það sem er kannski einkennilegast í þessu máli er að sá sem ber einna mesta ábyrgð, af þeim sem nú sitja á þingi, á þeirri löggjöf er hæstv. forsætisráðherra. Hin harða gagnrýni frá öðrum stjórnarflokknum beinist því fyrst og fremst að formanni hins stjórnarflokksins. Ég hlýt að vekja athygli á því, virðulegi forseti, og kalla eftir því: Ætlar hæstv. forsætisráðherra að sitja undir þessum svívirðingum frá Samfylkingunni og jafnvel frumvarpi sem einstakir þingmenn hennar flytja gegn því máli sem hann stóð að og bar í gegnum þingið ásamt fleiru góðu fólki? Eiga átökin í stjórnmálunum á næstu vikum að vera á milli stjórnarflokkanna í þingsalnum og fjölmiðlum?

Fyrir utan þau tvö mál sem hér hafa verið nefnd vil ég nefna álver þar sem einn ráðherra leggur sig í líma við að koma í veg fyrir að álverið verði reist og annar fagnar því að það skuli komast á koppinn. Fleiri mál má nefna af þessu tagi, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það er enginn samhljómur í stjórnarandstöðunni.) Mun hæstv. ríkisstjórn ná að sitja út sumarið, virðulegi forseti?