135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

heimsmarkaðsverð á olíu.

[13:45]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka upp við hæstv. forsætisráðherra olíuverð á heimsmarkaði. Það er mikið áhyggjuefni að nú er olían komin í 130 dollara og verið er að spá því að fyrir árslok fari hún í 150 dollara. (Gripið fram í.) Sumir spá því jafnvel að á næsta ári muni fatið fara í 200 dollara, en látum það vera, ég er að tala um 150, en sérfræðingar tala um hitt.

OPEC-ríkin hafa ákveðið og gefið það út að þau muni ekki auka framleiðsluna. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra. Hvaða vinna er í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar sem lýtur að þessum staðreyndum? Maður veltir t.d. fyrir sér hvaða áhrif þetta muni hafa á umferð á vegum. Hvað um almenningssamgöngur og hvernig verður með flutninga á milli landshluta sem verða þá kostnaðarsamari? Hugsanlega getur þetta haft áhrif á búsetu í landinu. Það eru mjög margar spurningar sem vakna.

Ég vil líka nefna að á árinu 2005 var ákveðið að vörugjald af bílum sem nýta að verulegu leyti eða öllu leyti hreint eldsneyti yrði 240 þús. lægra en ella. Nú er það svo að þessi sérregla gildir aðeins til ársloka 2008 en fyrir þann tíma var gert ráð fyrir að mótuð yrði heildarstefna um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa. Í lok þessa árs þarf ný stefna að liggja fyrir um þetta efni. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra. Hvað líður þeirri vinnu?