135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

heimsmarkaðsverð á olíu.

[13:51]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Já. Ég vil raunar taka undir meginefni þess sem kom fram hjá hv. þingmanni síðast. Ég held að við séum í öllum meginatriðum sammála um þetta, enda unnum við saman að framgangi þeirrar stefnu í mörg ár.

En fjármálaráðherrann núverandi hefur verið að láta vinna heilmikla vinnu í sambandi við gjaldtöku á eldsneyti og ég vænti þess að sú vinna sé á lokastigi. Þar tengjast saman mörg sjónarmið, bæði að spara eldsneytið, lækka olíureikning þjóðarbúsins með því að nota minna eldsneyti og nota frekar ódýrari tegundir af því, nota tæki sem nýta eldsneyti betur o.s.frv. Þarna koma líka við sögu mikilvæg umhverfissjónarmið um að við reynum að gæta þess að frá farartækjum sem nýta jarðefnaeldsneyti komi sem allra minnst mengun og minnstur útblástur.