135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

merking grænmetis.

[13:52]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Íslenskir grænmetisframleiðendur hafa auglýst á undanförnum missirum: Veljið íslenskt. Þið vitið hvað þið hafið í höndunum.

Nú er það svo að mikil brenglun á sér stað á merkingum á grænmeti á íslenskum markaði. Grænmeti sem getur verið flutt inn frá Ameríku, Asíu, Evrópu eða Afríku. Það er skolað upp úr íslensku vatni og selt sem íslensk framleiðsla. Þetta hef ég fengið staðfest frá Matvælaeftirlitinu og það skákar í skjóli einhverra reglna sem ekki munu vera mjög skýrar varðandi umpökkunaraðferðir. En það er staðreynd að verið er að selja grænmeti á Íslandi sem íslenskt en það er ekki íslenskt.

Þá spyr ég, virðulegi forseti. Hvers vegna kvarta ekki íslenskir framleiðendur? Einfaldlega vegna þess að þeir þora það ekki. Ef þeir kvarta þá er allt sem bendir til þess að þeim fáu birgjum, stóru birgjum sem flytja inn grænmeti til Íslands og skipta jafnframt við íslenska framleiðendur yrði refsað og þeim úthýst af markaði. Þess vegna segja þeir ekkert.

Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra hvort ekki sé fyllilega tímabært að grípa inn í og tryggja að á Íslandi séu réttar merkingar á íslensku grænmeti og það velkist ekki fyrir neinum að menn séu að kaupa íslenskt, eða ekki íslenskt, og að grípa (Forseti hringir.) þurfi í taumana. Þess vegna spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra.