135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

merking grænmetis.

[13:54]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ljótt væri ef satt reyndist af því að um er að ræða mál sem mundi flokkast undir gróft lögbrot og alvarleg vörusvik ef satt reyndist að verið væri að falsa vöru með slíkum hætti og blekkja upp á neytendur þannig að innfluttar erlendar vörur, grænmeti í þessu tilviki, væri selt sem innlend hérræktuð íslensk vara.

Formlega séð heyra merkingar á matvælum undir Matvælastofnun og hvort sú stofnun hefur skoðað málið þekki ég ekki nákvæmlega. En ef fólk býr yfir vísbendingum um slík brot, slíkar blekkingar og vörusvik er ástæða til að hvetja þá hina sömu, hvort sem eru neytendur úti í bæ eða þeir sem hafa með smásölu eða aðra verslun að gera, að leggja slík gögn til Neytendastofu og koma þannig rökstuddum grunsemdum á framfæri við til þess bæran aðila. Um væri að ræða gífurlega alvarlegt mál sem þyrfti að leiða til lykta eftir þar til gerðum leiðum, því einfaldlega væri verið að brjóta svo gróflega á íslenskum neytendum og svindla vöru inn á þá sem hefði allt annan uppruna en gefið er til kynna eða fullyrt á umbúðunum.

En merkingar á matvælum heyra undir Matvælastofnun og væri fróðlegt að vita hvort þeim hafi borist einhverjar slíkar ábendingar á síðustu mánuðum eða þá Neytendastofu sem fer með frekari rannsókn slíkra mála.