135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

bætt kjör umönnunarstétta.

[13:58]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Nú standa yfir kjaraviðræður og hefur að sjálfsögðu verið nokkur aðdragandi að þeim eins og gengur og gerist. Fyrir nokkrum vikum síðan hélt hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ræðu um jafnréttismál og sagði þar nokkur vel valin orð. Mig langar að vitna í þá ræðu, virðulegi forseti. Þar segir, með leyfi forseta:

„En það eru stór verkefni fram undan á sviði kjarasamningagerðar, einkum hjá ríki og sveitarfélögum. Þar mun reyna á stjórnarsáttmálann og þar verðum við að finna leiðir til þess að fjölmennum kvennahópunum, sem halda uppi almannaþjónustunni og hafa setið eftir í launaþróuninni, verði lyft án þess að körlunum sem sitja á toppnum verði lyft margfalt í leiðinni.

Ég tel það vera eitt brýnasta jafnréttismál samtímans og um leið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja bætt kjör uppeldis- og umönnunarstétta. Þetta er líka eitt stærsta málið í endurreisn okkar velferðarkerfis. Það er óþolandi ástand að ekki sé hægt að manna mikilvæg störf sem snúa að þjónustu við börn, sjúka og aldraða.“

Þetta eru mjög þung orð að mínu mati, virðulegur forseti, og forustumenn í kjarasamningagerðinni hafa tekið undir þetta. Ég vitna meðal annars í Signýju Jóhannesdóttur sem er forustumaður í Starfsgreinasambandinu en hún hefur sagt að ráðherrar í ríkisstjórninni hafi gefið kvennastéttum geysilega mikla von um að laun þeirra verði hækkuð. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem ber mesta ábyrgð á kjarasamningum við þessar stéttir, hvort verið sé að vinna í anda þessara geysilegu væntinga sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur ýtt undir hjá þeim sem eru að reyna að semja með þessum (Forseti hringir.) afar einbeittu orðum sem hér var vitnað til.