135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:16]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að það hefði átt að taka sveitarfélögin með inn í þessa nefnd. Fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, gerði einmitt athugasemd við þetta á fyrsta fundi nefndarinnar, að mér skilst. Samkvæmt því sem fram hefur komið opinberlega hafa formenn stjórnarflokkanna ekki alveg sömu sýn á hvað nefndin á að gera. Mér skilst að hæstv. forsætisráðherra segi að nefndin eigi að vera á vaktinni en hæstv. utanríkisráðherra opnar fyrir að nefndin komi með beinharðar tillögur. Alla vega á nefndin að fylgjast vel með Evrópumálunum og sveitarfélögin eru þar stór aðili eins og hér hefur komið fram. Sveitarfélögin eru t.d. með fulltrúa úti í Brussel sem gætir hagsmuna þeirra þannig að þau eru komin lengra en t.d. Alþingi í þeim efnum í Brussel. Við höfum rætt það á vettvangi þingsins hvort við eigum að koma upp fulltrúa þarna úti.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort það komi til greina að setja fulltrúa sveitarfélaganna síðar inn í nefndina af því að ráðherra sagði að á þessu stigi kæmi það ekki til greina.