135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

skipan Evrópunefndar.

598. mál
[14:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Sjálfsagt geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvernig skipa eigi svona nefnd. Það kom auðvitað til greina að setja í hana fulltrúa ráðuneytanna, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og kannski félagsmálaráðuneytis, vegna þess að vinnumarkaðurinn hefur mikil tengsl við Evrópusambandið. Þá hefði verið eðlilegt að Samband ísl. sveitarfélaga væri þarna líka.

Farin var önnur leið og ég er búinn að útskýra hver hún var. Síðan á þetta nefndarstarf auðvitað eftir að þróast og þá kemur í ljós hvort það er ástæða til þess að gera einhverjar breytingar á þessu. Ekkert af þessu tagi er óumbreytanlegt. Þá skoðum við bara hvort það er ástæða til þess að fara betur yfir þetta og þess vegna sagði ég áðan „á þessu stigi“. Ég held að rétt sé að gefa nefndinni tækifæri til þess að koma störfum sínum af stað og finna rétta taktinn í þetta. Svo geta menn rætt störf hennar hér á Alþingi þegar þar að kemur.