135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

samráðsvettvangur um efnahagsmál.

617. mál
[14:27]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Bændur þessa lands vinna mikilvægt starf í þágu neytenda og stuðla að fæðuöryggi þjóðarinnar. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi hér áðan skipti aðkoma Bændasamtakanna að síðustu þjóðarsátt sköpum árið 1990. Bændur lögðu þar verulega af mörkum til þess að ná böndum á þeirri miklu verðbólgu sem þá var. Þess vegna vekur það ákveðna furðu að Bændasamtökin skuli ekki hafa verið tekin að samningsborðinu nú þegar verðbólgan er á þessu skriði. Það er ljóst að grípa þarf í taumana og við framsóknarmenn höfum talað fyrir þjóðarsátt. Bændasamtökin eru ekki bara einhver samtök. Hér er um að ræða fjöldahreyfingu fólks, þúsunda bænda í landinu, sem skiptir sköpum á erfiðum tímum. Það er því nauðsynlegt, hæstv. forseti, að kalla Bændasamtökin að þessu borði eins og aðra (Forseti hringir.) stóra hagsmunaaðila því að þau eru stór hagsmunaaðili í þessu samhengi, hæstv. forseti.