135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki svarað neinu varðandi undirbúning þessa lagafrumvarps en hitt get ég sagt að þau sjónarmið sem hv. þm. Atli Gíslason vitnaði í í umræðu áðan komu auðvitað fram í nefndinni. Hins vegar fæ ég ekki séð að það breyti neinu um efni þessa frumvarps eða gefi okkur tilefni til að afnema það ákvæði sem talið er leggja skyldur á sveitarfélögin, að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir í upphafi málsins. Ég tel að menn eigi að hafa það í huga ef þeir ætla að ræða hér um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að gera það þá í tengslum við fjárlagaumræðu en ekki í tengslum við þetta frumvarp sem gerir aðeins þá eðlilegu kröfu að viðbragðsaðilar samtengist þannig að þetta mikilvæga öryggiskerfi haldist í lagi.