135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var tvímælalaust mikið framfaraspor þegar samræmd neyðarsímsvörun var tekin upp eða komst á á sínum tíma og þeir aðilar sem beittu sér fyrir því og tóku sig saman um það eiga þakkir skildar. Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því og eðlilega, þeir sem ekki lenda í því að þurfa að nota þessa þjónustu, hversu gríðarlega mikilvægt er að hún sé ekki bara til staðar og augljóslega skilvirk — enda er það fyrirkomulag að segja má alls staðar orðið notað í þróuðum samfélögum að þar sé um einn aðila að ræða, eitt númer, alþjóðlegt staðlað númer — heldur sé þjónustan á bak við fagleg, að hún sé veitt fumlaust og skjótt og það sé fagfólk sem sinnir henni. Með öðrum orðum, það er gríðarlega mikilvægt að þarna sé vel þjálfað reynt fólk, að þarna sé ekki mikil starfsmannavelta og ekki mikið los á hlutunum. Ég tel að breyttu breytanda vísi þetta allt í þá átt að heppilegast sé að einn aðili sé ábyrgur fyrir þessu verkefni og hafi það á sinni hendi — ríkið. Auðvitað eru svo þarna undirstofnanir sem eru á verksviði sveitarfélaganna eins og slökkvilið. Engu að síður er það þannig að ríkisvaldið ber yfirábyrgð á eiginlega öllum þeim þáttum sem lúta að öryggi fólks og samræmir þá hluti þó að fjölmargir aðilar leggi síðan sitt af mörkum þegar kemur út í aðgerðirnar, hvort sem það er slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, lögregla eða hverjir það eru.

Það vill svo til að undirritaður hefur sjálfur lent í því að eiga sína línu við lífið í gegnum starfsmann þessarar stofnunar í eins og hálfa klukkustund og ég held að ég geti alveg borið um það hversu gríðarlega miklu máli það skiptir að þá sé á hinum endanum faglegur aðili, vel þjálfaður, sem leysir það vandasama verk vel af hendi að halda sambandi við þann sem í hlut á, samtímis því að skilaboðunum er komið af stað áleiðis í kerfinu og menn kunni sitt fag. Mér finnst einkavæðingar- eða einkarekstrarveikin bera menn algerlega ofurliði þegar þeir ætla að ganga þannig frá þessu í lagatexta eins og hér er gert að þetta skuli vera í hlutafélagaformi. Þau rök finnst mér fátækleg að þetta hafi verið samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sínum tíma þegar litið er til þess hverjir standa fyrir starfseminni í dag. Það eru allt opinberir aðilar, ríkið, stærsta sveitarfélag landsins og tvö stór orkufyrirtæki sem leggja þarna af mörkum, annað í 100% eigu ríkisins, hitt sameignarfélag í 100% eigu sveitarfélaga, og þá er ekki miklum einkarekstri orðið til að dreifa. Auðvitað mætti þá byrja á að spyrja: Væri þó a.m.k. ekki skref í rétta átt að þetta væri opinbert hlutafélag og væri nokkuð því til fyrirstöðu þegar aðilarnir eru þessir? Með því er ég þó ekki að segja að lagaramminn um opinber hlutafélög sé fullnægjandi. Hann er allt of veikur að mínu mati og það er nánast nafngift en ekki mikið inntak sem í því er fólgið þó að það færi málin að vissu leyti í átt til sviðs hins opinbera rekstrar og nær upplýsinga- og stjórnsýslulögum og öðru slíku. Það sem er undarlegt er að menn skuli banna að þetta gæti verið á öðru formi. Látum vera að það væri haft opið og það væri þá sagt eins og Neyðarlínan sjálf mun leggja til að þetta geti eftir atvikum verið í hlutafélagaformi. En að það skuli vera svo að það sé bannað, t.d. að færa þetta inn í hefðbundinn ríkisrekstur, finnst mér alveg ótrúleg þrengsli, verð ég að segja. Ég heyri engin rök hjá formanni nefndarinnar fyrir því að ekki mætti koma til móts við breytingartillögu minni hluta allsherjarnefndar í þeim efnum eða a.m.k. mætast á miðri leið og banna það ekki að þarna gæti orðið breyting á og ríkið yfirtæki þetta verkefni, t.d. í tengslum við einhverjar breytingar í samskiptum aðila, ríkis og sveitarfélaga o.s.frv. Þarna eru ekki stórir fjármunir á ferð en oft er rætt um það að fara yfir hlutina þegar einhver breyting er að verða á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það gæti t.d. gerst í slíkum tilvikum að það væri sniðugt að ríkið byðist, gegn einhverju öðru, til að taka það alfarið að sér og kosta rekstur samræmdrar neyðarsvörunar, sem ég held að væri auðvitað langeðlilegasti hluturinn.

Það má líka spyrja hvort mikið samræmi sé í þessu máli og því sem er einnig á dagskrá á sviði almannavarna þar sem stefnan er öll í gagnstæða átt, að taka hlutina frá sveitarfélögum og færa þá alla undir ríkið eða forræði þess, ríkislögreglustjóra og það batterí. Ég held að það sé mjög mikilvægt líka að hafa í huga og muna, eins og hv. þm. Atli Gíslason rakti mjög vel í ræðu sinni og rekur í framhaldsnefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar, hvers eðlis þessi starfsemi er. Ef það er eitthvað sem mér finnst eiga að vera handan allrar hugsunar um einkarekstur og einkagróða þá er það rekstur neyðarsvörunar því varla ætla menn að fara að rukka inn gjöld, það væri a.m.k. handleggur að ná því inn í þeim tilvikum sem illa fer, af þeim sem leita þarna aðstoðar. Það er eiginlega svo fáránlegt að vera með bollaleggingar af því tagi að það hálfa væri nóg. Þetta á auðvitað að reka fyrir opinbert fé og þarna erum við ekki að tala um neinn slíkan umtalsverðan kostnað að það þurfi að fæla neinn frá. Mér finnst líka miklu eðlilegra að þeir misjafnlega settu aðilar sem tengjast starfseminni, sem eru sveitarfélög eða stofnanir þeirra, frjáls félagasamtök og hjálparaðilar, séu allir jafnsettir gagnvart því að ríkið er þarna á endanum, ber kostnaðinn og tryggir þessa þjónustu og leggur þar með af mörkum í þágu öryggis borganna við þessar aðstæður.

Ég tek mjög undir það að þessu þarf að breyta í frumvarpinu og ég verð að segja alveg eins og er að ég hefði helst viljað sjá að menn gerðu eina tilraun enn til að ná saman um þetta mál í hv. allsherjarnefnd, því að það er eiginlega dálítið dapurlegt ef menn þurfa að fara að afgreiða einn þátt þessa máls eða kannski tvo í ágreiningi. Það ætti ekki að þurfa að vera einhver pólitískur eða efnislegur ágreiningur uppi um mál af þessu tagi. Ég held líka að það sé að mörgu leyti í þágu þess sem ég byrjaði á að nefna, sem snýr að stöðugleika og festu í þessari starfsemi, að þetta væru fastráðnir opinberir starfsmenn að öllu leyti á skilmálum hins opinbera vinnumarkaðar og innan hins opinbera rekstrarsviðs þannig að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ættu þarna við vegna líka þess að þessir starfsmenn meðhöndla viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Þarna þarf að hafa ákvæði um trúnað og ákvæði um meðferð og geymslu upplýsinga og förgun upplýsinga og annað í þeim dúr. Það hafa reyndar verið einhver brögð að ásókn í að hagnýta upplýsingar úr þessu kerfi. Fjölmiðlar hafa sótt mjög á — um það er mér fullkunnugt — um að fá að draga upplýsingar út úr kerfinu, matreiða þær og gera þær að krassandi söluvöru. Ég er ekki viss um að það sé alltaf þægileg staða sem upp getur komið hjá þeim sem í hlut eiga og eru settir í þá aðstöðu að þurfa að fara að svara því hvort þeir gefi samþykki sitt fyrir slíku og annað í þeim dúr. Þarna er á ýmsan hátt um starfsemi að ræða sem mörg og mismunandi rök, rök úr ólíkum áttum getum við sagt, hníga að því sama að það sé langgæfulegast að hafa tryggilega um þetta búið innan lagaramma hins opinbera rekstrar. Stjórnsýslu- og upplýsingalög geta að sjálfsögðu komið hér við sögu, þ.e. í báðar áttir, og lög um meðferð persónuupplýsinga. Allt þetta þarf að hafa í huga og svo náttúrlega réttaröryggi þeirra sem leita til Neyðarlínunnar og ég hef minnst á, t.d. í sambandi við meðferð trúnaðarupplýsinga í framhaldinu.

Helst hefði ég viljað sjá það, frú forseti, að við gætum gert hlé á þessari umræðu meðan hún er opin og enn er svigrúm til að flytja breytingartillögur. Ef ekki er, eins og mér heyrðist því miður á formanni allsherjarnefndar, hljómgrunnur fyrir því að samþykkja tillögu minni hlutans, gætum við kannski rætt breytingar, eitthvert annað orðalag á 1. mgr. 8. gr. sem betri samstaða gæti orðið um, t.d. því að fara að ósk Neyðarlínunnar sjálfrar um að hafa þetta opið, hafa þetta valkvætt. Með því er ekki verið að segja að það verði endilega horfið frá núverandi rekstrarformi, alla vega ekki í bráð, en það væri a.m.k. ekki bannað að gera það ef sú kynni að verða niðurstaðan einhvern tíma. Mér þætti vænt um ef hv. formaður allsherjarnefndar gæti komið upp og fært fram einhver einustu haldbær rök fyrir því að það þurfi að vera bannað að rekstrarformið gæti verið annað en hlutafélag. Ég hefði mjög gaman af því að heyra hver þau rök væru.

Lengi skal manninn reyna. Það kann vel að vera að hv. þm. Birgir Ármannsson sé svo öflugur að hann geti hugsað upp einhver rök sem haldi vatni en ég á voðalega erfitt með að sjá þau og býst, satt best að segja, ekki við því að þau verði beysin nema þau séu þá handan raunvísindanna og komin yfir á eitthvert trúarlegt stig, að þetta verði að vera svona, þetta eigi að vera svona, það séu einhverjar æðri tilskipanir sem geri það að verkum að svona skuli þetta vera.