135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason nefndi í framsöguræðu sinni að menn mættu ekki vera blindaðir af kreddum og ég bið samflokksmenn hans að hafa það í huga þegar við ræðum þessi mál. Við höfum haft hlutafélagaform á þessum rekstri um langt skeið, það hefur reynst vel, það hefur ekki valdið vandræðum að hafa það rekstrarform á. Það er ekki afstaða ríkisstjórnarflokkanna eða meiri hlutans í allsherjarnefnd, sem reyndar samanstendur af öllum öðrum en Vinstri grænum, að tilefni sé til að breyta þessu rekstrarformi og því er alveg ástæðulaust að fara að tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu efni. Það er sjálfstæð ákvörðun að breyta þessu úr hlutafélagaformi í ríkisstofnun, sem tillaga Vinstri grænna gengur væntanlega út á. Hún er ekki á borðinu hjá ríkisstjórninni eða stjórnarflokkunum og því alveg ástæðulaust að hafa orðalag þessara laga eitthvað óljóst um það í hvers konar rekstrarformi þetta eigi að vera.

Ég er þeirrar skoðunar að ef sú ákvörðun yrði tekin að þetta ætti að vera ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki þyrfti til þess skýr lagafyrirmæli og þar með hvort sem er breytingar á þessum lögum. Ég hygg því að það sé ótækt að reka ríkisstofnun á grundvelli jafnóljóss ákvæðis eins og heimildarákvæðis til þess að reka þetta í hvaða formi sem er. (Forseti hringir.) Ég held að það stæðist ekki.