135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru að sjálfsögðu engin rök fyrir því að það verði að banna að rekstrarformið geti verið annað að núverandi ríkisstjórn hafi ekki áform um að breyta þessu, (Gripið fram í.) það eru engin rök. Hér liggur fyrir ósk frá þessum aðila sjálfum um að vera ekki að binda þetta svona og hafa þetta þá a.m.k. frekar valkvætt.

Talandi um kreddur þá held ég að engin deila sé um hvorum megin kreddan liggur hér. Hún liggur hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni og þeim sem ætla að reyna að telja okkur trú um að það verði að banna að rekstrarformið sé annað en hlutafélag. Við erum alveg til viðræðu um það hér, þó að við séum þeirrar skoðunar að eðlilegast sé að þetta sé ríkisrekstur, og að því ætti að vinna, að mætast á miðri leið og hafa þetta bara valkvætt opið. Fyrir því eru ein góð og gild rök þó svo að ríkisstjórnin hafi ekki áform um að þetta breytist — og eru það mikil tíðindi að þetta stórmál skuli hafa verið á borðum ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnanna — það yrði þó a.m.k. ekki bannað samkvæmt lögum að hefja undirbúning að breytingum ef okkar leið yrði farin, ef leið Neyðarlínunnar yrði farin.

Hvernig verður litið á það ef lögin standa svona, að það verði bannað að þetta sé í öðru formi en hlutafélagaformi? Menn munu líta svo á að þeir hafi ekki heimild til þess svo mikið sem skoða það eða fara að undirbúa það að einhverjar breytingar gætu orðið þarna á.

Hlutafélög eru góð til síns brúks, alveg prýðilegt form í rekstri, einkahlutafélag fyrir lítinn rekstur hóps manna eða fjölskyldna og stærri almenningshlutafélög, sérstaklega ef myndarlega er að þeim staðið og þau heiðarlega rekin í stærri rekstur, en þau eiga ekki alls staðar við. Á hlutafélagaformið sérstaklega við þegar ríkið, Reykjavíkurborg, Landsvirkjun og Orkuveitan eiga saman í félagi? (Forseti hringir.) Sitja þeir þá í stjórn fjármálaráðherra, borgarstjórinn, forstjóri Orkuveitunnar og forstjóri Landsvirkjunar? (Forseti hringir.) Hvaða grín er þetta?