135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég er að vekja athygli á í þessu sambandi er það að mér finnst að í lagatexta af þessu tagi eigi að vera skýrt í hvaða rekstrarformi viðkomandi starfsemi er, að það eigi ekki að vera óljóst. Ef þetta væri ríkisstofnun þyrfti að koma með skýrum hætti fram í lögunum að þetta ætti að vera ríkisstofnun. Ekki er hægt að stofna ríkisstofnanir öðruvísi en þær grundvallist á lögum þannig að sú ákvörðun að breyta þessu úr núverandi fyrirkomulagi hlutafélags í ríkisstofnun krefðist lagabreytingar hvort sem er þannig að það að hafa þetta eitthvað opið í lagatextanum er ótæk leið að mínu mati.

Ég er þeirrar skoðunar að mjög góð reynsla sé af þessu fyrirkomulagi og tel því ekki tilefni til þeirrar breytingar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar fyrir, ég tel alveg ástæðulaust að hafa þær áhyggjur sem hann og hv. þm. Atli Gíslason hafa látið í ljós vegna þessa félagaforms. Ég bendi á að einhver millileið sem felst í óljósu orðalagi í frumvarpstextanum er að mínu mati ófullnægjandi grunnur undir breytingu á rekstrarformi stofnunarinnar. Ef menn vilja breyta þessu í ríkisstofnun kemur það með skýrum hætti fram í lagafrumvarpi eða lagatexta, ekki með einhverjum óljósum hætti þar sem ekki er tekin afstaða til þess hvort viðkomandi stofnun eða fyrirtæki eigi að vera ríkisfyrirtæki eða hlutafélag.