135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:26]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þá umræðu sem hér fer fram um það ágæta frumvarp sem hér er til umræðu um samræmda neyðarsvörun. Ég vil byrja á að hnykkja á því sem ég sagði hér áðan í andsvörum við hv. formann allsherjarnefndar, hv. þm. Birgi Ármannsson, og lýtur að samskiptum við sveitarfélögin. Ég tel að hér sé enn eitt dæmið um að farið sé á svig við það samkomulag sem fyrir liggur milli ríkis og sveitarfélaga um það hvernig meta eigi kostnaðaráhrif af stjórnvaldsfyrirmælum og lagafrumvörpum, reglugerðum o.s.frv. Ég tel þetta mjög bagalegt og hef fjallað um það í tengslum við önnur mál sem hér hafa komið inn. Hv. þm. Atli Gíslason orðaði það þannig hér áðan, og ég tók undir það, að nánast í hverri viku kæmu lagafrumvörp inn með þessum hætti þar sem ekki er uppfyllt samkomulag sem ríkið hefur sjálft gert og skrifað undir fyrir sína hönd ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það tel ég mjög bagalegt.

Annað mál sem hefur orðið talsverð umræða um er ákvæði 8. gr. um að rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skuli vera í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar. Óneitanlega vekur nokkra athygli að orðalagið skuli vera með þeim hætti að það skuli bundið niður að það þurfi nauðsynlega að vera hlutafélag sem sér um þennan rekstur. Talað var um það hér áðan að einhverjar kreddur væru í gangi í umræðunni um rekstrarform en ég held að öllum sé ljóst að um er að ræða opinbera starfsemi sem óneitanlega verður á ábyrgð opinberra aðila. Hvernig svo sem færi með hugsanlegt hlutafélag sem hefði þennan rekstur á sínum herðum er óhjákvæmilegt að hið opinbera axli ábyrgð á starfseminni sem þarna fer fram.

Þetta kemur m.a. fram í umsögnum sem um þetta mál hafa verið skrifaðar og fylgja gögnum nefndarinnar. Ríkislögreglustjóri segir m.a. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Ríkislögreglustjóri telur mikilvægt með hliðsjón af eðli starfseminnar að forræði félagsins sé á hendi íslenska ríkisins.“

Þetta segir í umsögn ríkislögreglustjóra, hann vísar sem sagt til eðlis starfseminnar og telur eðlilegt og mikilvægt að forræðið sé á hendi íslenska ríkisins. Þessu sjónarmiði hefur ekki verið svarað, hvorki af hálfu hv. þm. Birgis Ármannssonar, eftir því sem ég best fæ séð við að hlaupa yfir gögn málsins, né í nefndaráliti. Þá er spurningin: Var fjallað sérstaklega um þetta efni á fundum nefndarinnar, tók hún þetta sjónarmið fyrir á fundum sínum og varð það niðurstaða hennar að ekki þyrfti að taka tillit til þessa sjónarmiðs eða er nefndin einfaldlega ósammála því? Mér finnst mikilvægt að menn geri grein fyrir afstöðu sinni til þessa álitaefnis.

Í raun og veru kemur sama sjónarmið fram í umsögn Neyðarlínunnar sjálfrar þar sem beinlínis er lagt til að orðalagið sé ekki með þeim hætti sem er í 8. gr. frumvarpsins. Í þeirri umsögn segir:

„Þarna mætti vera „getur verið í höndum hlutafélags“.“

Neyðarlínan sjálf bendir sem sagt á það, og vísa væntanlega þar til eðlis þjónustunnar, að ekki eigi að negla það niður að þetta skuli vera í höndum hlutafélags. Í raun og veru kom skýrt fram, fannst mér, t.d. í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar — hann spurði: Hver mun axla ábyrgðina ef hlutafélagið er ekki lengur til staðar eða með þeim hætti sem lagt er upp með? Verður það ekki ríkið sem tekur þá við þessum rekstri alfarið? Hér hefur einnig komið fram að þeir aðilar sem standa að Neyðarlínunni í dag eru allt opinberir aðilar. Ríkið sjálft er með um 3/4 eignarhlut og síðan eru þar aðrir opinberir aðilar.

Að binda það niður að þetta skuli vera í höndum hlutafélags, ekki einu sinni opinbers hlutafélags, er kredda ef eitthvað er kredda í þessu máli. Það er eins og menn hafi bitið það í sig að allt sé fengið með því að búa til hlutafélag um svona starfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé starfsemi sem hentar alls ekki til slíks. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hlutafélög eru að sjálfsögðu ágæt til síns brúks þar sem þau eiga við en í eðli hlutafélaga liggur að eignarhaldinu er skipt í hluti sem eðli máls samkvæmt ganga kaupum og sölum, það er eðli hlutafélaga. Hlutafélagaformið er því hentugt í starfsemi þar sem það á við, þar sem eðlilegt er að hlutir geti gengið kaupum og sölum. Ekki er verið að tala um það hér, vænti ég, eða hvað?

Mér finnst að menn hafi dottið í pytt, meiri hlutinn, bæði af hálfu ráðherra, sem flytur málið, og meiri hlutinn í nefndinni. Menn eru fastir í einhverjum hlutafélagavæðingarpytt eins og það rekstrarform eigi að ná út yfir gröf og dauða alveg sama hvaða starfsemi um er að ræða. Ég held að engum detti í raun og veru annað í hug en að hið opinbera mun alltaf þurfa að axla ábyrgð á starfsemi af þessu tagi hvernig sem allt fer að öðru leyti.

Ég hvet hv. þm. Birgi Ármannsson og aðra nefndarmenn í allsherjarnefnd til þess að hugsa þetta mál örlítið betur og þá m.a. með hliðsjón af því hvort ekki sé hægt að breyta orðalaginu í þessari grein, t.d. með þeim hætti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði til eða með þeim hætti sem lagður er til á sérstöku þingskjali og hv. þm. Atli Gíslason hefur flutt við þessa umræðu.