135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

svör við fyrirspurnum.

[18:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól er að spyrja um afdrif fyrirspurnar sem útbýtt var í þinginu 2. apríl síðastliðinn. Fyrirspurnin fjallar um ferðalög, utanferðir ráðherra frá myndun núverandi ríkisstjórnar. Ég spyr í þessari fyrirspurn og óska skriflegra svara meðal annars um það hversu oft hver ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur verið í útlöndum, farið til útlanda í opinberum erindagjörðum, hvert sé tilefni ferðarinnar, hversu margir hafa verið í fylgdarliði og svo framvegis. Loks spyr ég um heildarkostnað.

Herra forseti. Hér eru tólf ráðherrar, tólf ráðuneyti. Mér er kunnugt um að allflest ef ekki öll ráðuneytin hafa fyrir löngu skilað svörum við þessum fyrirspurnum til forsætisráðuneytisins. Ég hef margítrekað spurt eftir því hér frammi á þingfundaskrifstofu hverju það sæti að svar sé ekki komið við þessari fyrirspurn og ég veit að nokkur ráðuneyti hafa nú þegar sent svör sín til fjölmiðla en þó ekki öll. Þau hafa sent þau sem sagt bæði til forsætisráðherra og til fjölmiðla. En sum ráðuneyti hafa bara sent þetta til forsætisráðuneytisins. Mér finnst þetta, herra forseti, ekki nógu gott verklag og alls ekki í (Forseti hringir.) samræmi við þingsköp og ég vil spyrja hverju þetta sætir.