135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:14]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu máli hafa sjónarmið og andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við ákvæðið um hlutafélagið alltaf legið fyrir. Það kom fram hér við 1. umr. Það kom fram í nefnd milli 1. og 2. umr. og raunar einnig þegar málið gekk aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Það er ljóst að sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessa veru áttu ekki hljómgrunn hjá neinum öðrum flokki þannig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið alveg úti í kanti í þessu máli. Þegar það er komið núna á elleftu stundu, þegar búið er að afgreiða málið tvisvar sinnum út úr nefnd og fjalla um það hér í umræðum — þetta er 3. umr. sem á sér stað um málið í þinginu — og komið er með tillögu af þessu tagi þá þarf hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekkert að undrast það að málinu sé ekki kippt úr meðferð til þess að fara í nýtt samningaferli um orðalag sem hann er þar að leggja til.

Það sem ég hef bent á og ítreka enn einu sinni er auðvitað það að núverandi orðalag ákvæðisins gefur fullt tilefni til þess að reka fyrirtækið eða stofnunina með sama hætti og verið hefur. Það eru ekki áform um að breyta því. Ef slík áform verða af hálfu meiri hluta þingsins eða ríkisstjórnar á einhverjum tíma þá fer það auðvitað bara sinn vanagang í gegnum löggjafarferlið og niðurstaða liggur fyrir. Ég held því að í þessu máli (Forseti hringir.) séum við í þeim sporum að við náum einfaldlega ekki saman. Stundum er það bara þannig að við getum ekki komið til móts við sjónarmið allra.