135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tek hér aftur til máls til þess að ganga eftir svörum frá hv. þingmanni, formanni allsherjarnefndar, Birgi Ármannssyni. Ég ítreka spurningar mínar varðandi það form sem er hér um ræðir, hlutafélagaformið. Ég get vitnað í framkvæmd fjárlaga, skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem vikið er að því að hlutafélagaform í ríkiseigu er orðið til vandræða innan fjársýslukerfisins. Þarna eru fyrirtæki sem eru að fullu eða mjög stórum hluta með tekjustofna sína í opinberu fé, annaðhvort í beinum framlögum frá ríki og sveitarfélögum eða þá vegna þjónustu sem opinber fyrirtæki að stórum hluta kaupa af þessum aðila. Þetta er að fullu opinber rekstur. Hins vegar lýtur hann ekki eftirlitsskyldu Alþingis í gegnum fjárlaganefnd og Ríkisendurskoðun má heldur ekki birta almenna reikninga slíkra fyrirtækja.

Ég spyr því um hvort nefndin hafi kannað eða leitað umsagna Ríkisendurskoðunar um að þetta skuli vera hlutafélag og farið ofan í þá kosti og galla þess sem núna eru ræddir. Ég vitnaði til umræðunnar í fjárlaganefnd þar sem fjársýsla þessara fyrirtækja er orðin til mikilla vandræða.

Ég spurði líka hvort þetta fyrirtæki væri með virðisaukaskattsnúmer og fengi endurgreiddan útskatt sinn af keyptum aðföngum og tækjum en það er einmitt ein forsenda og röksemd fyrir því að menn geti rekið hlutafélag í því umhverfi sem lagaumgerð og tilgangur hlutafélaga er. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort þetta liggi ljóst fyrir því að ég tel að þetta skipti miklu máli varðandi þá umgjörð sem verið er að setja þetta mál í. Ég spurði að því hvort sú umgjörð sem þarna væri samræmdist fjárreiðulögum hvað þetta varðar, að þetta er fyrirtæki sem þiggur að meginhluta fjármagn frá opinberum aðilum til starfsemi sinnar. Það er í eins konar einokunarrekstri. Það er öllum skylt að hafa samband og bindast þessari þjónustu og allt gott um það að segja. Þetta er einn grunnþáttur öryggisþjónustu landsmanna og þess vegna mikilvægt að öll umgjörð þess sé sem vönduðust. Herra forseti. Ég ítreka þessar spurningar til hv. þm. og formanns nefndarinnar.