135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að spurningar hv. þingmanns tengjast ekki frumvarpinu sem slíku nema með mjög óbeinum hætti. Ég ætla ekki hér í stuttum umræðum að fara í almennar umræður við hv. þingmann um kosti og galla hlutafélagarekstrar eða þess að opinber þjónusta eða þjónusta sem ríkið hefur með höndum sé að einhverju leyti rekin í formi hlutafélaga eða opinberra hlutafélaga. Það sem ég hef bent á í þessari umræðu er að það hafa ekki verið nein vandkvæði í starfsemi Neyðarlínunnar vegna rekstrarformsins. Það kom skýrt fram í nefndinni og var talsvert fjallað um það þar. Neyðarlínan hefur verið í hlutafélagaformi frá upphafi og það hefur ekki valdið neinum vandræðum í rekstrinum og þess var ekki talið tilefni til þess að breyta því.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um hvort leitað hafi verið umsagna hjá Ríkisendurskoðun vegna þessa frumvarps þá var það ekki gert. Ég hef auðvitað ekki setið jafnlengi á þingi og hv. þm. Jón Bjarnason en ég minnist þess ekki að Ríkisendurskoðun hafi fengið mál af þessu tagi til umsagnar og veit ekki alveg hvort það væri við hæfi að Ríkisendurskoðun veitti umsagnir um starfsemi af þessu tagi sem hún á að skoða út frá öðrum forsendum og öðrum enda, ef svo má segja.

Varðandi aðrar spurningar hv. þingmanns, t.d. hvort þarna sé um að ræða starfsemi sem beri virðisaukaskattskyldu og þess háttar er auðvitað um að ræða (Forseti hringir.) hlutafélag sem ber réttindi og skyldur sem önnur hlutafélög í landinu og hefur ekki sérstöðu að því leyti. (Forseti hringir.) Varðandi fjárreiðulögin hef ég enga ástæðu til þess að ætla að neitt í starfsemi Neyðarlínunnar sé í andstöðu við fjárreiðulög.