135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

541. mál
[18:37]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns. Að sjálfsögðu ber löggjafanum að vanda sig og ekki síst þegar málin koma gölluð frá Stjórnarráðinu eða ráðuneytinu. En auðvitað geta orðið mistök eins og hv. þingmaður veit um og hefur eflaust lent í á sínum langa þingferli.

En að sjálfsögðu get ég tekið undir það að þingheimur þarf að vanda sig vel. Þau atriði sem við erum að afgreiða hér á hinu háa Alþingi snerta grundvallaratriði, snerta löggjöf landsins. Og auðvitað skiptir máli að þingheimur allur og sérstaklega þingnefndir fari mjög vel yfir mál og ég held að þingnefndir séu nú nokkurn veginn tilbúnar til að gera það, fara vel yfir mál og sérstaklega þegar þau eru eins flókin og þetta mál.

En mig langar hins vegar samt að fagna því að okkur tókst að koma í veg fyrir þessi mistök og auðvitað get ég ekki annað en beðist velvirðingar á þeim þótt ég sjái ekki á hvaða stigi mistökin áttu sér stað. En það var gott að við náðum saman um að þessi leiðrétting nái fram að ganga.