135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[18:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Mál það sem við ræðum telst kannski ekki mjög veigamikið en mér finnst samt ástæða til að koma að ákveðnum grundvallarforsendum bak við þetta mál. Hér er sem sagt lagt til að ákveðnum hluta af þeim höfuðstól sem fyrir liggur til framfærslu fátækra verði varið í einu lagi til félagslegra framkvæmda á Fljótsdalshéraði. Ég set ákveðið spurningarmerki við það þar sem tvímælalaust er um að ræða, eins og var skilningur forfeðra okkar, eign Jesú Krists sjálfs sem skuli varið til framfærslu fátækra. Í því felst ekki að taka höfuðstólinn og eyða honum heldur að vextirnir á hverju ári séu notaðir til framfærslu fátækra. Þess vegna hefði mér þótt eðlilegra að hér væri verið að ræða í hvað mætti nota vexti af þeim peningum og þá ætti náttúrlega að nota áfram með sama hætti og verið hefur með jarðaafgjöld kristfjárjarða en ekki að ráðstafa þessu með þessum hætti.

Hitt vekur líka töluverðar spurningar, þ.e. um aðkomu Alþingis að málinu, hversu eðlileg hún er. Lengi vel í sögu okkar voru það sveitarstjórnirnar í okkar frumstæðu stjórnskipan í rauninni, þá voru það engu að síður alfarið sveitarstjórnirnar sem sáu um kristfjárjarðirnar en ekki konungur eða ríkisvaldið með atbeina konungs. Þess vegna hef ég ákveðnar efasemdir um aðkomu Alþingis, hvort hún sé nauðsynleg og hvort hún sé hreinlega viðeigandi í þessu tilviki, hvort þetta sé ekki mál sem ætti alveg að vera á forræði viðkomandi sveitarstjórnar.

Kristfjárjarðir voru, ef ég kann þessa sögu rétt og ég hygg að það fari nokkuð nærri að ég muni hana, gefnar ákveðnum sveitarfélögum. Það var ekki alltaf bundið því að kristfjárjörð væri innan sama sveitarfélags og eignaðist hana. Ég man eftir því að í minni sveit átti sveitarstjórnin kristfjárjörð niðri í Flóa en það var vegalengd þar á milli. Biskupstungnahreppur, sem sagt hinn forni, átti kristfjárjörðina Kolsholt í Flóa. Sú þróun hefur reyndar orðið á seinni árum að sveitarfélögin hafa seilst til að selja þær eignir og ég tel það í rauninni miður. En grundvallarforsenda þess að í slík viðskipti sé ráðist — og það getur vel verið að mönnum þyki einmitt lag að gera slíkt þegar sæmilegt verð fæst fyrir jarðir, sem hefur verið akkúrat síðustu ár — að þá sé engu að síður myndaður sjóður til að hjálpa fátækum því að það er alls ekki svo að ekki séu til fátækir í þessu landi eins og verið hefur.

Um lagafrumvarp þetta er það að segja að ég hef efasemdir um aðkomu löggjafarvaldsins að málinu þar sem sveitarstjórnin hefur með þetta að gera. Ég sakna þess að kirkjan skuli ekki hafa beinan atbeina að ráðstöfun í þessu. Það hefur í rauninni fylgt þeirri ríkisvæðingu sem hér hefur verið á undanförnum áratugum, að ríkið hefur verið að yfirtaka hlutverk ýmissa sjálfstæðra stofnana sem voru áður mun stærri í samfélaginu. Þar á meðal er íslenska kirkjan. Miklu nær væri að máli þessu væri vísað til þjóðkirkjunnar til afgreiðslu og að Alþingi hefði ekkert um það að segja, það þætti mér hinn eðlilegi gangur málsins. Það mætti skoða í sambandi við fleiri kristfjárjarðir að kirkjan hefur jafnvel farið þá leið að vilja vísa málunum til ríkisins og láta ríkið hafa fyrirhöfnina af þessu, en það tel ég mjög miður og væri í rauninni full ástæða til að endurskoða ráðstöfun allra kristfjárjarða í landinu.