135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

brottfall laga um læknaráð.

463. mál
[19:00]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er lítið mál og einfalt í sniðum sem full samstaða hefur verið um að afgreiða frá þinginu sem lög, þ.e. að fella niður 66 ára gömul lög frá 1942 um læknaráð. Á nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar kom fram að sú sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu málsins og ég átti ekki tök á því að taka til máls þegar málið kom til 2. umr. Ég vil því nota þetta tækifæri til að fara um það örfáum orðum.

Læknaráð hefur starfað í óbreyttri mynd allt frá árinu 1942 og eitt af hlutverkum þess frá upphafi átti að vera að láta í té sérfræðilegar umsagnir um læknisfræðileg efni til stjórnar heilbrigðismála. Nú er ljóst að mjög miklar breytingar hafa orðið í stjórnsýslunni og allri málsmeðferð þar frá því að þessi lög voru sett. Gerðar hafa verið athugasemdir við hæfi þeirra sem í læknaráði sitja og Hæstiréttur Íslands er meðal þeirra sem gert hafa athugasemdir við það. Þá er í nefndaráliti vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2007 sem rennir stoðum undir að læknaráð standist ekki þær reglur um hæfi sem eðlilegt er að gera.

Ég vil minna á, herra forseti, að fyrir þinginu þingsályktunartillaga m.a. frá þeirri sem hér stendur um að kanna hvort ekki megi gera landlæknisembættið að sjálfstæðara embætti sem heyrði beint undir Alþingi með svipuðum hætti og ríkisendurskoðandi gerir eða umboðsmaður Alþingis. Málið er nefnilega að þetta verkefni læknaráðs, að gera sérfræðilegar umsagnir um læknisfræðileg efni, virkaði lengst til þannig að leitað var til læknaráðs þegar kvartanir bárust en kvartanir eiga að berast sem kunnugt er til landlæknisembættisins. Ýmsir telja að ekki sé alltaf gætt nægilegs aðskilnaðar í eftirliti og framkvæmd við afgreiðslu slíkra mála með því að landlæknisembættið heyrir með sama hætti undir heilbrigðisráðuneytið og þær stofnanir sem embættinu er ætlað að hafa eftirlit með og rannsaka hugsanleg brot hjá, heilbrigðisstarfsmanna eða stofnana sem slíkra. Jafnvel þó svo að lög um læknaráð verði felld úr gildi er ekki víst að tryggt verði með fullnægjandi hætti að athugun á kærum eða kvörtunum vegna starfsemi eða þjónustu heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsmanna standist allar hæfisreglur.

Ég vil minna á að á árinu 2006 bárust landlæknisembættinu um 270 kvartanir á mánuði. Ég hlýt að nota þetta tækifæri til að ítreka nauðsyn þess að búa vel að landlæknisembættinu, ekki síst núna þegar verið er að leggja læknaráðið af og ríkið er þar með að spara 2,5 millj. kr. á ári.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta litla frumvarp segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 14/1942, um læknaráð, verði felld brott og læknaráð þar með lagt niður. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist með samþykkt frumvarpsins en á undanförnum árum hefur árlegur kostnaður við læknaráð numið um 2,5 millj. kr., en hann fellur niður við gildistöku laganna.“

Herra forseti. Ég vildi ekki láta það tækifæri ónotað að vekja athygli á því að þarna eru fjármunir sem auðvitað hefði með réttu átt að láta renna til landlæknisembættisins til að styrkja embættið í því að afgreiða og fjalla um kvartanir og gefa álit um læknisfræðileg álitamál eins og læknaráðinu var ætlað upphaflega.