135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:40]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn til mín sem formanns heilbrigðisnefndar en eins og hann veit er málið fyrst og fremst á forræði landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar og hefur ekki verið tekið upp í heilbrigðisnefnd sérstaklega. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt gerir ESB kröfu um að við tökum upp matvælalöggjöf sambandsins og þar liggja m.a. viðskiptahagsmunir að baki hjá okkur, sérstaklega varðandi fiskinn, því að við eigum stóra markaði í Evrópu.

Talað hefur verið um að þessar breytingar séu óhjákvæmilegar og það er rétt að það hafa komið fram raddir, m.a. hjá mjög virtum vísindamanni, Margréti Guðnadóttur prófessor, þar sem hún dregur fram að það gæti verið ákveðin hætta fyrir hendi varðandi sjúkdóma. En við höfum líka heyrt svör yfirdýralæknis. Hann telur að ekki séu miklar líkur á að lýðheilsu sé stefnt í voða eða í aukna hættu með þessum breytingum og það séu jafnvel meiri líkur á að sjúkdómar berist til landsins með fólki en með löglega innfluttu hráu kjöti. Hægt er að fara fram á ákveðnar tryggingar varðandi slíkan innflutning hvað varðar salmonellu en hins vegar hafa verið ákveðnar áhyggjur hvað varðar kampýlóbakter. Það er ákveðin vinna í gangi í Evrópu varðandi það atriði, m.a. hafa Danir beitt sér fyrir því, og ég geri ráð fyrir að við fylgjum þeirri umræðu og leggjum áherslu á þá þætti. Jafnframt hefur verið bent á að það sé meiri hætta á því að sýkingar berist í gegnum fóðurmjöl úr sláturúrgangi. Við höfum þegar gert ráðstafanir innan okkar EES-samnings til að koma í veg fyrir innflutning á sýktu fóðurmjöli. Það var gert fyrir nokkrum árum.