135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla að beina orðum mínum til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Árið 1999 var samþykkt á Alþingi í marsmánuði að Alþingi Íslendinga styddi eðlilegar veiðar á hvalastofnum hér við land að uppfylltum tillögum Hafrannsóknastofnunar um að hafnar skyldu veiðar o.s.frv. Alþingi fól ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar og standa vel að þeirri kynningu.

Sú kynning og það kynningarstarf allt tóku reyndar ansi langan tíma. Farið var vítt og breitt um heiminn til að kynna þá afstöðu okkar Íslendinga að við teldum að við ættum fullan rétt til þess að nýta hvalastofnana með sjálfbærum hætti og viðhalda þeirri náttúrunýtingu sem hér hefur viðgengist um aldir, þ.e. hefð okkar til hvalveiða og nýtingar hvalastofnanna. Margar aðrar þjóðir hér í norðurhöfum hafa einnig áskilið sér þennan rétt og má t.d. nefna Grænlendinga, Færeyinga og Norðmenn og fleiri þjóðir í því sambandi.

Nú ber svo við að þegar er tekin ákvörðun um að veiða hér aðeins 40 hrefnur af þeim heimildum sem Hafrannsóknastofnun mælir með þá bregst formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, við og gefur yfirlýsingu fyrir hönd allra ráðherranna um að Samfylkingin og ráðherrar hennar séu andvíg málinu og þessari stefnu.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. formann þingflokksins hvort það sé ætlun þingflokksins að fylgja þessari stefnu fram með sérstökum tillöguflutningi hér á Alþingi eða hver er stefna þingflokks Samfylkingarinnar í málinu? (Forseti hringir.)