135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:54]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson rakti hér áðan um Afganistan þá er það svo að óháð því hvort Atlantshafsbandalagið komi að málum í Afganistan eða ekki eru full rök fyrir því að Ísland taki þátt í friðargæslu í Afganistan. Afganistan er fimmta fátækasta ríki í heimi og þar hafa verið gríðarlega erfiðar aðstæður og samfélagsumbrot.

Það er því alveg ljóst að fyrir þátttöku Íslands í friðargæslu í Afganistan eru gild rök. Þess vegna er afstaða vinstri grænna svo undarleg, að það sé með einhverjum hætti réttlætanlegt að Íslendingar einir þjóða hér í Norður-Evrópu skerist úr leik og fari frá Afganistan án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Íslendingar eru þar að beiðni Sameinuðu þjóðanna. Atlantshafsbandalagið er þar í umboði Sameinuðu þjóðanna og þannig er aðkomu okkar að þessu verkefni háttað. Síðan þarf auðvitað að tryggja að ekkert fari úrskeiðis í friðargæslunni og mjög mikilvægt að vanda þar til rannsókna. Slík rannsókn stendur yfir og er ekki nema gott að farið sé yfir málin.

Varðandi embætti ríkislögreglustjóra þá er það engin prívatskoðun hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar heldur deili ég þeirri skoðun með honum. Það er skynsamlegt að auka samlegðaráhrif löggæslu sem mest hjá lögreglustjórunum í þessum fjölmennu löggæsluumdæmum eins og á Suðurnesjum og hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að þeir hafi sem flesta verkþætti innan embætta sinna og geti nýtt mannafla sem best. Síðan á stefnumótunar- og samræmingarhlutverk auðvitað að vera í höndum ríkislögreglustjóra. En þessir stóru verkþættir eiga að vera í höndum lögreglustjóranna hér í þessum (Forseti hringir.) mannfreku umdæmum sem þurfa á meiri styrk að halda, sannarlega.