135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[11:03]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins byrja á því að leiðrétta hv. þm. Guðjón Arnar þegar hann talar um að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í hrefnuveiðum séu 200 dýr, það hafa verið 400 dýr í nokkurn tíma. Afstaða ráðherra Samfylkingarinnar í hvalveiðimálinu gagnvart ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gefa út kvóta á 40 hrefnum kemur vissulega á óvart. Það eru reyndar fordæmi fyrir þessu í sögu Alþingis og sögu ríkisstjórnar. Þegar Ísland færði landhelgi sína út í 50 mílur gerði Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra, samkomulag við Breta sem fól í sér viðurkenningu á 50 mílna landhelgi landsins. Ráðherrar í ríkisstjórn hans, þáverandi alþýðubandalagsráðherrar, komu með einhliða yfirlýsingu gegn þeim samningi á þeim tíma.

Það er hluti af þessari vinstri stefnu, virðulegi forseti, að tala niður atvinnulífið, hér megum við ekki virkja, hér megum við ekki byggja upp atvinnutækifæri út um land byggð á framkvæmdum við náttúruauðlindir okkar, hér megum við ekki veiða hvali í sjónum með sjálfbærum hætti. Atvinnulífið stendur reyndar svo til einhuga að þessari tillögu að undanskilinni ferðaþjónustu. Öll hagsmunasamtök í sjávarútvegi, sjómenn, útgerðarmenn, vélstjórar, Farmanna- og fiskimannasambandið eru öll sammála okkur. Það er dálítið sérstakt að Norðmenn geta gefið út kvóta upp á 1053 hrefnur ár eftir ár og það er ekki í fréttum. Af hverju? Vegna þess að það er pólitísk samstaða um það. Menn hafa tekist á innan lands um málið en það er pólitísk samstaða um að standa á bak við þá ákvörðun og það hefur verið síðan 1993. Þegar talað er um að þjóðir heims taki afstöðu gegn hvalveiðum er hlutfallið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins um það bil 50:50 og hefur verið (Forseti hringir.) samþykkt þar tillaga sem mælir með hvalveiðum. Þegar sífellt er talað um meiri hagsmuni fyrir minni (Forseti hringir.) þá kalla ég eftir því hvar þeir liggja. Það krefst skýringa að tala um meiri hagsmuni fyrir minni þegar ákveðið er að veiða 40 hrefnur eða fara í hvalveiðar. (Forseti hringir.) Hvar liggja þessir meiri hagsmunir?