135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:13]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram tók forseti fram í upphafi að fundur mundi standa fram á kvöld og ekki voru gerðar neinar athugasemdir við það þannig að það er ekki ástæða til að ræða það neitt sérstaklega.

Hitt vildi ég nefna, vegna orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að frá því að þingskapabreytingin gekk í gegn held ég að á þessum vetri hafi verið færri kvöldfundir en nokkurn tíma. Að því leytinu til hefur þetta tekist nokkuð vel og ég tel mig fara með rétt þegar ég segi að kvöldfundirnir hafi verið 4–5 í vetur. Hugmyndafræðin um fjölskylduvænni vinnustað hefur fengið nokkurt flug í vetur og að því leyti hafa breytingar á þingsköpum tekist mjög vel og ég held að það sé full ástæða til að fagna því. Um leið er mikilvægt að tryggja að næg (Forseti hringir.) og góð umræða fari fram um þau mikilvægu mál sem við ætlum að ræða í dag.