135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í þingsköpunum segir um þingfundartíma:

„Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til klukkan 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, sbr. 67. gr.“

Forseti hefur ekki borið fram tillögu um lengdan fundartíma en í raun og veru boðað að þess megi vænta með ummælum sínum um að til standi að ljúka dagskránni. Síðan stendur:

„Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara. Þá getur forseti ákveðið að þingfundur standi til miðnættis á þriðjudagskvöldum.“

Það er engin leið að lesa þessa málsgrein öðruvísi en þannig að ekki sé gert ráð fyrir næturfundum og eingöngu fundum til miðnættis á þriðjudögum. Ég tek því þá þannig að hér liggi fyrir, samanber ummæli formanns þingflokks Samfylkingarinnar, að það megi vænta fundar eitthvað fram á kvöldið, að þess megi vænta að forseti beri upp tillögu einhvern tíma í dag um lengri fundartíma en til klukkan 8 á kvöld, (Forseti hringir.) þ.e. eitthvað lengra inn í kvöldið, en hér verði ekki næturfundur.