135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þessum lagatúlkunum hv. formanns allsherjarnefndar. Mér finnst þetta í rauninni vera hártogun vegna þess að eins og málið var kynnt og lagt upp voru þriðjudagar þeir dagar sem fundir gætu staðið lengur, allt til miðnættis, var sagt. Á það féllust menn, (Gripið fram í.) á það féllst þingið að á þriðjudagskvöldum gætu fundir staðið allt til miðnættis. Það átti að vera það lengsta sem þingfundir gætu staðið. (Gripið fram í: Nei.) Undantekningarákvæðið um að hægt sé að halda fundum áfram á öðrum dögum er ekki hægt að skilja þannig að það geti verið eins lengi og mönnum dettur í hug. Svo minni ég á að það eru nefndarfundir strax í fyrramálið og þingfundur klukkan hálfellefu á morgun þannig að það er algerlega óeðlilegt við þær aðstæður að halda áfram lengur en til miðnættis. Ég skora á forseta að kveða upp úr um það.