135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Til þess er vísað að hér hafi fáir kvöldfundir verið í vetur og það er vissulega rétt og enginn kvartar undan því. Ástæðan er einfaldlega sú að ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin með málin sín inn í þingið. Það er ekki fyrr en á allra síðustu dögum að menn hafa getað komið sér saman um hvernig eigi að afgreiða stærstu mál út úr nefndum og menn eru ekki einu sinni búnir að því. Þetta vitum við.

Þess vegna er verið að undirbúa næturfundi langt fram í næstu viku. Ég leyfi mér bara að túlka orð hv. stjórnarþingmanna sem hér hafa talað í þá veru. Menn ætla sér bara að afgreiða málin í skjóli nætur og mér þykir miður, hæstv. forseti, að það sé notað sem afsökun fyrir því að það hafi verið fáir þingfundir í vetur. Það er ekki boðlegt að forseti geri það.