135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til umræðu afar mikilsvert mál sem varðar allt leikskólastigið okkar og ekki bara það heldur í raun og veru grundvallarbreytingu á skólakerfinu íslenska því að í kjölfarið fylgja frumvörp um grunnskóla, framhaldsskóla og menntun kennara og raunar um opinbera háskóla líka.

Mig langar bara að nota tækifærið af því að hv. formaður nefndarinnar sagði í niðurlagi ræðu sinnar að hann fyndi sérstaka þörf hjá sér að þakka nefndinni og þá ekki síst ritara nefndarinnar, lögfræðingi nefndarinnar, Unni Kristínu Sveinbjörnsdóttur. Ég vil taka sérstaklega undir þessi orð hv. formanns. Þetta er búin að vera gríðarlega yfirgripsmikil vinna. Nefndin tók við málinu frá Alþingi þann 7. desember sl. og ég vil lofa mér að hrósa hv. formanni nefndarinnar fyrir það að hann tók afar skynsamlega á þessu máli frá byrjun. Skólastigin þrjú sem við höfum verið að fjalla um fengu mikið rými í vinnu nefndarinnar. Það var strax óskað eftir aukafundi í nefndinni og voru haldnir aukafundir allan tímann sem málin voru í vinnslu þannig að nefndin hefur lagt gríðarlega mikið á sig. Allir þeir gestir sem óskað var eftir komu fyrir nefndina. Gríðarlega mikið magn upplýsinga safnaðist fyrir. Það var kannski á síðustu dögunum sem hefði mátt eyða meiri tíma í að vinna úr þeim upplýsingum en ég kvarta ekki, hæstv. forseti. Þessi nefndarvinna var til fyrirmyndar og það væri óskandi að oftar væri unnið í nefndunum með þessum hætti að fólk upplifði ekki pressu við að vinna málin í nefndunum og sérstaklega á lokasprettinum. Ég vil leyfa mér að hæla hv. formanni nefndarinnar fyrir að hafa gefið gott svigrúm og stjórnað vinnunni vel.

Það er líka ánægjuefni þegar næst sameiginleg niðurstaða í málum sem eru kannski ekki mikil ágreiningsmál en þar sem er þó mjög mikill meiningarmunur um ákveðin blæbrigði. Það verður að segja að í heildina náðu nefndarmenn mjög vel saman um grundvallaratriði þessara frumvarpa. Þótt ákveðinn blæbrigðamunur sé á meiningum manna þá náðist engu að síður mjög ásættanleg niðurstaða hvað varðar öll helstu meginmálin.

Hvað mig sjálfa varðar flyt ég breytingartillögur við frumvarpið sem lesa má á þskj. 1071. Þær varða tvennt fyrst og fremst. Annars vegar legg ég til að settur verði inn nýr kafli í frumvarpið sem skilgreini rétt nemenda. Það verði gert til samræmis við grunnskólafrumvarpið enda var stór þáttur í vinnu nefndarinnar fólginn í því að tryggja það að frumvörpin væru sem líkust, þ.e. frumvarp til grunnskólalaga og frumvarp til leikskólalaga þannig hægt væri að lesa þau nánast saman. Mjög mikil vinna fór í að samræma á milli þessara skólastiga. Að því leytinu til þykir mér vanta í frumvarp til laga um leikskóla kafla um rétt nemenda og set inn í breytingartillögur mínar tvær greinar þar að lútandi.

Hins vegar vil ég nefna þá þætti er varða gjaldtökuna. Gjaldtökuheimildir í leikskólafrumvarpinu eru talsverðar og lúta þær auðvitað ekki hvað síst að einkareknum leikskólum ásamt hinum almennu leikskólum. Í 27. gr. frumvarpsins er gefin heimild fyrir því að sveitarstjórnir fái að ákveða gjaldtöku fyrir barnið í leikskólanum og sagt er að ákvæði greinarinnar taki ekki til leikskóla sem hafa fengið rekstrarleyfi samkvæmt 25. gr. sem fjallar um sjálfstæði leikskólanna, þ.e. að segja að samkvæmt frumvarpinu geta þeir sem reka leikskóla utan hins opinbera kerfis tekið skólagjöld að eigin geðþótta. Því breytir meiri hluti nefndarinnar með því að áskilið er að í samkomulagi milli sveitarstjórna og viðkomandi rekstraraðila þurfi að semja um gjaldtökuna. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum hins vegar þá sérstöðu í þessari flóru stjórnmálaflokka að við viljum að leikskólinn verði alfarið gjaldfrjáls. Þess vegna er stór hluti af breytingartillögum mínum á þskj. 1071 fólginn í því að innleiða inn í frumvarpið ákvæði sem gera leikskólann gjaldfrjálsan.

Hæstv. forseti. Ég mun nú í máli mínu fara yfir helstu atriði breytingartillagna minna og kannski yfir þau atriði sem mér hefur fundist bera hæst í vinnu nefndarinnar á þessum tíma sem við höfum haft málið til skoðunar. Það eru auðvitað allmörg nýmæli í þessum lögum. Ég vil nefna t.d. ákvæði er varða þagnarskyldu starfsmanna í leikskólanum, ákvæði um símenntun, um foreldraráð, skólanámskrá og starfsáætlun. Ég vil nefna sprotasjóðinn, ákvæði sem varða t.d. mat á náminu og eftirlit með skólunum. Það eru nýmæli í frumvarpinu hvað varðar gjaldtökuheimildirnar, það eru nýmæli sem varða samrekstur skóla sem gagnast fyrst og fremst smærri sveitarfélögum en engu að síður öðrum líka. Starfsfólk leikskóla, um foreldra, það eru nýmæli er varða tengsl leikskólanna og grunnskólanna og stór hluti af ásetningi við endurskoðun þessa skólakerfis okkar er fólginn í því að gera tengsl þessara ólíku skólastiga sem best og flæði á milli hinna ólíku skólastiga hindrunarlaust. Í því sambandi eru nokkuð mörg ákvæði sem eiga að tryggja að slíkt verði með ágætum. Það eru líka nýmæli varðandi skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu og einnig nýmæli varðandi einkareknu skólana.

Sveitarfélögin höfðu eðli málsins samkvæmt talsvert margt við þessi frumvörp að athuga. Það verður að segjast eins og er að það var ekki komið til móts við allar hugmyndir sveitarfélaganna. Reyndar var heldur ekki alger samhljómur á milli þeirra hugmynda sem við í nefndinni fengum frá sveitarfélögunum. Ég nefni þar kannski Samband ísl. sveitarfélaga og Reykjavíkurborg en engu að síður fór talsverður tími í að ræða þær tillögur sem við fengum, sérstaklega umfangsmiklar tillögur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég vil leyfa mér að segja það hér í þessari umræðu að Samband ísl. sveitarfélaga hefur lagt sig eftir því að vinna skólamálin með miklum ágætum og gefa þeim aukið vægi í allri vinnu sambandsins. Það má hrósa sambandinu fyrir að hafa látið nefndinni í té skólaskýrslu sambandsins frá 2007 sem hefur að geyma upplýsingar um þá skóla sem eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Þar eru mjög viðamiklar upplýsingar, bæði tölulegar og eins hugmyndafræðilegar upplýsingar, upplýsingar um hlutverk t.d. nefnda sveitarfélaganna sem fjalla um skólamál. Eins er gerð grein fyrir þeim breyttu vinnubrögðum sem hafa verið innleidd í samskiptum sveitarfélaganna og Kennarasambands Íslands. Ég vil í því sambandi minna á góðan árangur af starfi Sambands ísl. sveitarfélaga hvað þetta varðar sem ég held að við höfum séð það í nýgerðum kjarasamningum við grunnskólakennara. Allt það efni sem sveitarfélögin hafa látið okkur í té hefur nýst okkur vel í þessari vinnu og væri sannarlega óskandi að við hefðum lengri tíma til að fara ofan í ákveðna þætti þeirra hugmynda sem sambandið leggur fram. Á fundi stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga í febrúar 2005 var samþykkt að setja á fót skólamálanefnd sambandsins og það er sú skólamálanefnd sem á heiðurinn af því að vinna skólamálaskýrsluna sem ég nefndi. Starfsmaður skólamálanefndarinnar og tengiliður við skólaskrifstofu landsins, Svandís Ingimundardóttir, sem er þróunar- og skólafulltrúi, kom á fund nefndarinnar oftar en einu sinni og gerði grein fyrir sjónarmiðum sambandsins ásamt lögfræðingi þess.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að það eru auðvitað ákveðin vandkvæði fólgin í því að leikskólastigið skuli ekki vera skilgreint sem eitt af skylduverkefnum sveitarfélaganna. Það má segja að það geri nokkuð óhægt um vik að setja lagaramma sem henti öllum börnum. Í því sambandi mætti segja að ef gildissvið frumvarpsins ætti að ná til allra barna í öllum sveitarfélögum þyrfti orðalagið að vera með öðrum hætti en er í frumvarpinu í 12. gr. og við getum sagt í 1. gr. líka. Í 1. og 2. gr. mætti koma með skýrari hætti fram að leikskólarnir skulu vera ætlaðir öllum börnum og eins í 12. gr. að gerð leikskólahúsnæðis ætti að taka mið af þörfum allra barna, líka fatlaðra barna. Það er óhætt að setja svona orðalag inn í lagatexta meðan það er ekki skylduverkefni sveitarfélaga að reka leikskóla.

Ég vék að því áðan, hæstv. forseti, að það hefði kannski verið stærsta ágreiningsefni nefndarinnar er varðar lægri gjaldtöku leikskólastigsins en það er ein meginstoðin í vinstri grænni menntastefnu að leikskólinn verði fyrir öll börn og hann verði án gjaldtöku. Það er okkar mat að það eigi að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að reka leikskólana og í þeim efnum og í því augnamiði höfum við sett fram oftar en einu sinni hér á Alþingi Íslendinga tillögur um að farið verði í ákveðna vinnu í því efni. Við höfum lagt til að félagsmálaráðherra verði fengið það hlutverk að skipa nefnd sem falið verði það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Hugmyndir okkar ganga út á að nefndin verði skipuð fulltrúa frá öllum þingflokkum, frá fulltrúum fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra ætti að skipa án tilnefningar.

Hæstv. forseti. Nú á síðustu dögum höfum við verið að fá fréttir af því hversu mikið ójafnræði ríkir í gjaldtöku á leikskólum Ég er með frétt úr sjónvarpsfréttum þann 19. maí sl. Þar fengum við fréttir af því að gríðarlega há leikskólagjöld séu víða á landinu. Dæmi er tekið í fréttum um að endurskoðuð gjaldskrá leikskóla í Norðurþingi leiði af sér að fólk með tvö börn borgi rúmlega 30 þús. kr. meira fyrir vistun þeirra barna en fólk í sambærilegri stöðu í Reykjavík gerir. Í fréttinni kemur jafnframt fram að á Fljótsdalshéraði borgi fólk með þrjú börn í leikskóla tæplega 336 þús. kr. meira fyrir 11 mánaða vistun á ári en fólk gerir í Reykjavík. Það kemur einnig fram í fréttinni að á Húsavík sé gjaldið jafnvel enn hærra en á Fljótsdalshéraði. Þar er talað um að hjón sem eru með tvö börn á leikskóla á Húsavík sem eru í sveitarfélaginu Norðurþingi 8 tíma á dag í fullu fæði borgi 57.414 kr. á mánuði eða tæplega 335.900 kr. meira en hjón í sambærilegri stöðu í Reykjavík. Ég tel, hæstv. forseti, að fólki þyki það óásættanlegt að foreldrar barna skuli þurfa að búa við svona ólík skilyrði eftir því hvar það býr á landinu. Þess vegna ítrekum við með breytingartillögum við þetta frumvarp að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls. Ég set það fram á breytingartillöguskjali 1071 þannig að við 21. gr. frumvarpsins bætist tveir nýir málsliðir svohljóðandi, hæstv. forseti:

„Stofnun og rekstur leikskóla skal vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd þessara laga hver í sínu sveitarfélagi. Ekki skal innheimt gjald fyrir leikskólavist barna, þó er sveitarfélögum heimilt að gera samkomulag um greiðslu kostnaðar við leikskólavist einstakra barna sem njóta leikskólavistar í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi, slíkt gjald skal endurspegla raunkostnað viðtökusveitarfélags.“

Síðan geri ég einnig tillögu um tvær nýjar greinar sem tryggi það að skólaakstur og skólamálsverðir verði sömuleiðis gjaldfrjálsir fyrir öll börn sem njóta skólaaksturs og að leikskólinn skuli sjá nemendum fyrir málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sá málsverður verði nemendum og foreldrum þeirra að kostnaðarlausu. Þetta teljum við afar mikilvægt, hæstv. forseti, og leggjum mikla áherslu á að þingmenn skoði þessar hugmyndir, velti þeim fyrir sér og því sem komið hefur fram í fréttum upp á síðkastið, við hvaða aðstæður fólk býr hvað varðar leikskólagjöld. Fólk á að fá tækifæri til að breyta þessum frumvörpum til batnaðar hvað þetta varðar í atkvæðagreiðslu sem kemur til með að fara fram eftir 2. umr.

Varðandi einkareknu skólana, hæstv. forseti, vil ég segja þetta: Ég geri mér grein fyrir því að breytingartillagan sem ég legg fram þrengir talsvert mikið að þeim aðilum sem vilja reka leikskóla í eigin nafni. En ég vil meina að það sé samt sem áður rétt að halda þessum möguleika opnum. Ég geri ekki tillögu um að honum verði algerlega lokað. Fyrir hverja vil ég halda honum opnum? Þá foreldra sem telja það vera sáluhjálparatriði að barnið þeirra gangi í einkarekinn leikskóla, leikskóla þar sem foreldri geti haft verulega mikið um það að segja sem fram fer í skólanum. Þá vil ég segja að samkvæmt mínum hugmyndum þá mundu þeir einkareknu skólar sem fengju heimild til að starfa engu að síður þurfa að heyra undir skólanefndir sveitarfélaganna. Mér þykir nauðsynlegt að slíks samræmis sé gætt. Mér þykir líka nauðsynlegt að þessir einkareknu skólar heyri undir upplýsingalög, að upplýsingalög og stjórnsýslulög nái yfir þessa skóla. En þá er í raun og veru ein lög eftir sem einkareknir skólar yrðu undanþegnir og það eru starfsmannalögin, lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ef það er sáluhjálparatriði einhverra foreldra að börnin þeirra gangi í skóla sem ekki eru bundnir af starfsmannalögum, lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þá yrði það heimilt. Að öðru leyti yrðu einkareknir skólar samkvæmt mínum hugmyndum sambærilegir við leikskóla sveitarfélaganna. Mig langar til að vekja athygli á þeim hugmyndum sem frumvarp menntamálaráðherra gerir ráð fyrir, þ.e. mikilli fjölbreytni í leikskólastarfi. Ég tel að möguleikar séu fyrir því að foreldrar eða félagasamtök eða hverjir svo sem það væru, noti einhverjar sérstakar uppeldisstefnur til að grunda eða reka leikskóla. Ég vil meina að það sé svigrúm fyrir slíkt innan hins opinbera kerfis.

Hæstv. forseti. Þetta eru í meginatriðum þau sjónarmið sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tölum fyrir og sem ég kem inn á eða geri breytingartillögur um á nefndu þingskjali.

Annað sem ég vil gera að umræðuefni, hæstv. forseti, eru réttindi fatlaðra barna. Það eru gerðar ákveðnar bragarbætur hjá meiri hlutanum hvað réttindi fatlaðra barna varðar í frumvarpinu en þær eru þó ekki nægilegar að mínu mati. Þess vegna geri ég tillögur um nýjan kafla inn í lögin sem varði rétt nemenda. Þar geri ég ráð fyrir að allir nemendur leikskóla eigi rétt á verkefnum sem taki mið af aldri þeirra, af andlegri getu þeirra og líkamlegri getu í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og vellíðan barnahópsins. Ég geri ráð fyrir að nemendur leikskóla eigi rétt á að njóta bernsku sinnar og hæfileika og finna til öryggis í öllu starfi á vegum leikskólans. Leita skuli til sjónarmiða leikskólabarnanna varðandi námsumhverfi þeirra og starfs innan leikskólans.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér kemur það mjög á óvart að tími minn skuli útrunninn. Ég á mjög margt eftir að segja og þetta eru nýju þingsköpin sem koma nú í bakið á mér og sem ég er allsendis óvön. Ég bið hæstv. forseta hér og nú að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég fái lokið máli mínu síðar í umræðunni.