135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:45]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem talað hafa hér á undan mér, að það var mjög virðingarvert og mjög til fyrirmyndar hvernig að þessu máli var staðið og vinnunni í nefndinni. Við áttum mjög góð samtöl um þetta mikilvæga skólastig og mér hefur þótt það vanta dálítið í störfum okkar að við beinum betur og meira sjónum okkar að leikskólastiginu. Það er svo sannarlega gert hér og við áttum á tíðum hugmyndafræðilegar samræður um stöðu leikskólans.

Það sem mér þótti hvað áhugaverðast í þessari vinnu voru ábendingar og athugasemdir til kennaraskólanna, á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, um sjónarmið leikskólakennara og það sýnir vel hve leikskólakennarafræðin eru orðin sterk á Íslandi og umsagnir þeirra höfðu mikil áhrif, a.m.k. á mig. Þessar ábendingar skila sér inn í breytingartillögur nefndarinnar, t.d. hvað varðar að leikskólinn eigi að fá að njóta þess að vera sjálfstætt skólastig og eigi að fá að hafa sína sérstöðu en ekki verða grunnskólamiðaður og námsmiðaður eins og kannski hefur verið tilhneiging til. Það kom líka í ljós í störfum nefndarinnar að ef eitthvað er hefur hin raunverulega þróun verið sú að hugmyndafræði leikskólastigsins er í raunveruleikanum að þrýstast upp í neðstu skólastig grunnskólans en lögin hafa hins vegar frekar viljað líta á málið öfugt. Þess vegna eru gerðar hérna mjög fínar og merkilegar breytingartillögur af hálfu allrar nefndarinnar við 1. gr. um að á eftir orðinu „uppeldi“ komi inn hugtakið „umönnun“ þar sem segir að leikskóli skuli annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri í samræmi við lög þessi.

Þetta er gríðarlega mikilvægt, þetta er eitt orð en það er gríðarlega gildishlaðið og mikilvægt orð vegna þess að leikskólinn er, virðulegi forseti, eins og við vitum að breytast mjög mikið vegna þess að yngri og yngri börn koma inn á leikskólann. Krafan um að yngri börn komi inn í leikskólann er sömuleiðis að verða háværari.

Ég fagna því líka og vil vekja athygli á breytingartillögu sem nefndin gerir við 16. gr. þar sem vilji nefndarinnar um að það verði og skuli koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla kemur skýrt fram. Það skiptir gríðarlega miklu máli að sveitarstjórnin sé þarna á milli og það eru tekin út orðin „skal leitast við“ og tekin mjög eindregin afstaða í nefndinni um að þarna skuli standa „skal“ koma á gagnvirku samstarfi í leikskóla og grunnskóla vegna þess að það skiptir gríðarlega miklu máli að það sem er að gerast í leikskóla skili sér vel með börnunum upp í grunnskólann. Þarna er ekki eingöngu verið að tala á einstaklingssviði heldur ekki síður að hin leikskólamenningarlega hlið skili sér til grunnskólans og með kynslóðunum upp í grunnskólann og því fagna ég því líka.

Sömuleiðis er hér nýbreytni í lögunum og í breytingartillögunum þar sem við 23. gr. er kveðið á um sérfræðinga í skólamálum og að á vegum sveitarfélaga skuli starfa sérfræðingar í skólamálum. Nefndin gerir breytingartillögu um að það verði sérfræðingar í leikskólamálum og það er einnig gert til þess að undirstrika styrk fræðigreinarinnar og mikilvægi leikskólafræðanna í öllu þessu starfi og sömuleiðis þá sterku sérstöðu sem leikskólinn hefur og allt það starf sem þar fer fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um of en vil þó aðeins nefna þróunarleikskólana sem ég vék að í andsvari áðan. Um þá er fjallað í 29. gr. en því ákvæði er fagnað mjög í flestum umsögnum. Ég tek undir að þetta er gríðarlega spennandi grein, ef svo má að orði komast, og sýnir þá viðleitni sem orðin er að skapa fjölbreytni í leikskólastarfi. Við erum með fjölbreytt framboð leikskóla og ég tel að leikskólinn eigi að vera mjög opinn og að leikskólastigið eigi að vera tiltölulega opið fyrir nýjum straumum vegna þess að það er þannig að foreldrar velja hvort og yfirleitt í hvaða leikskóla börnin þeirra fara. Ég nefni t.d. að í Kópavogi eru nokkrir leikskólar sem fylgja mjög merkilegri stefnu, svokallaðri heilsustefnu, og þeir eru reknir á vegum sveitarfélagsins. Síðan eru leikskólar sem starfa samkvæmt Hjallastefnunni, þeir eru ekki reknir á vegum sveitarstjórna heldur sérstaks félags í Garðabæ og í Hafnarfirði. Þessi þróun er mjög spennandi en það er auðvitað ekki sama hvernig þetta er gert og ég er alveg sammála því. Ég held að ákvæði eins og þetta um þróunarleikskóla geti haft mjög mikla þýðingu.

Hér hefur verið fjallað um gjaldtöku og nefndin leggur fram breytingartillögu við 27. gr. um gjaldtöku. Þetta er breyting og ósk sem kom inn frá t.d. Reykjavíkurborg og sömuleiðis höfðu komið fram athugasemdir við þessa grein þar sem segir að sveitarstjórnum sé heimilt að ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla. Gjaldtaka fyrir hvert barn má þó ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins. Síðan er, eins og frumvarpið er núna, veitt undanþága, þ.e. að ákvæði þessarar greinar taki ekki til leikskóla sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt 25. gr., þ.e. sem eru ekki rekin á vegum sveitarfélagsins sjálfs. Þetta, virðulegi forseti, samþykkti nefndin að gengi ekki upp og þess vegna leggur nefndin til þá breytingu að sveitarstjórnum verði heimilt að gera samning við viðkomandi skóla um fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku. Með þessum orðum er verið að segja að gjaldtökumálin séu á vegum sveitarfélaganna og auðvitað snýst þetta um tekjuskiptingu sveitarfélaga og annað slíkt. En auðvitað þarf ríkið líka að koma að þessu. En það er mín skoðun að eins og þróunin hefur verið á leikskólastiginu eigi gjaldtökuumræðan og sú pólitík öllsömul að vera á sveitarstjórnarstiginu því sveitarstjórnir bera í raun ábyrgð á þjónustunni við íbúana. Enda sjáum við að sú pólitíska umræða sem fer fram innan sveitarfélaganna veldur því að leikskólagjöldin hafa verið að þrýstast niður frekar en hitt á langflestum stöðum. Sé það hins vegar raunin að litlu sveitarfélögin lendi í þeim vanda að geta ekki boðið íbúum sínum upp á ódýrari leikskólavist eins og gerist í stærri sveitarfélögum þá verðum við auðvitað að skoða það sérstaklega en það er líka hluti af hinni stóru sívinsælu umræðu um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga, ég held að sjónarmið mín hafi komið fram. Ég er mjög hlynnt þessu frumvarpi og þeim breytingum sem gerðar eru. Ég held að leikskólastigið sé að styrkjast alveg gríðarlega og sérþekking sem hefur byggst upp innan þessa skólastigs er að styrkjast mjög, leikskólafræðin eru að verða mjög sterk fræðigrein í samfélaginu sem ég tel að hafi mjög mikla þýðingu að skili sér vel inn í leikskólana og inn á leikskólastigið í framtíðinni.