135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:54]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þm. Höskuld Þórhallsson um eitt af því fjölmarga sem hann ræddi í ræðu sinni og það varðar ákvæði í 2. gr. um hina kristnu arfleifð íslenskrar menningar og trúarbrögðin. Hann vitnaði í sínu máli m.a. til erindis frá Prestafélagi Íslands, frekar en biskupsstofu, þar sem fjallað er um að mikilvægt sé fyrir okkur að gleyma ekki uppruna okkar og vöggugjöfinni sem íslensk þjóð fékk. Þá má velta því fyrir sér hver hún sé. Má ekki allt eins færa rök fyrir því að það sé ásatrúin sem íslensk þjóð hafði og fékk í vöggugjöf þegar landnámsmennirnir komu hingað á sínum tíma og hún sé alveg eins gjaldgeng? Það má líka velta því fyrir sér þegar talað er um kristnina í þessu samhengi, hún er auðvitað samofin íslenskri menningu og samfélagi í þúsund ár og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En þá má líka hafa í huga að við höfum ekki alltaf verið lúterskrar trúar eins og í dag. Við áttum okkur langa sögu sem kaþólsk þjóð. Síðan hafa annars konar trúarbrögð og jafnvel trúleysi komið inn í menningu okkar og samfélag. Ég vil því velta því aðeins upp við þingmanninn hvort honum finnist ekki — ég veit að afstaða hans er sú að mikilvægt sé fyrir okkur að halda upp á kristnina — ekki sanngjarnt svo að öllu sé til haga haldið að menn geri ráð fyrir að fleiri trúarbrögð séu samofin menningu og sögu þjóðarinnar og svigrúm þurfi að vera hvað það varðar í uppeldisstarfi í leikskólum.