135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það strax fram að ég er alls ekki andvígur því að stutt sé við þróunarstarf í leikskólum og það eflt nema síður sé. Ég tók sjálfur þátt í því sem formaður leikskólanefndar í Reykjavík á árum áður að setja á laggirnar þróunarsjóð leikskóla í Reykjavíkurborg og tel það mjög mikilvægt. En í frumvarpinu er beinlínis gert ráð fyrir að hægt sé að veita undanþágu frá lögum og reglugerðum í því tilfelli og maður veltir því fyrir sér hvort það eigi að vera algjörlega takmarkalaust, ef svo má segja, vegna þess að um sé að ræða einhvers konar þróunarstarf. Þess vegna spurði ég hver afstaða nefndarinnar hefði verið til þeirra sjónarmiða sem komu fram í umsögn Kennarasambandsins og Félags leikskólakennara þar sem þau telja að í raun sé óþarfi að kveða á um þetta í lögum með vísan til þess að slíkt starf hafi nú þegar farið fram, og hvort komið hefðu fram í nefndinni einhver sjónarmið um hvaða ákvæði laga og reglugerða það væru sem þyrfti þá (Forseti hringir.) að vera hægt að víkja til hliðar.