135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:36]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir minntist á að áður en farið yrði í þessa umræðu þyrfti að ræða við sveitarfélögin. Ég get tekið undir það á vissan hátt en frumkvæðið verður að koma frá lagasetningarvaldinu. Ég held að það liggi alveg fyrir.

Ég held að það sé afskaplega lítið mál að kostnaðargreina hvað það kostar að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Ef mig minnir rétt gæti það kostað ríkið um það bil 8 milljarða sem mundu koma í vasann hjá ungu barnafólki, ungum fjölskyldum sem eru núna að berjast við að koma sér upp þaki yfir höfuðið sem því miður verður erfiðara og erfiðara.

Hv. þingmaður minntist líka á sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna. (Forseti hringir.) Ég tel að hann sé afar mikilvægur en vil þó benda á að nú er verið að færa í lög eða er (Forseti hringir.) tillaga um að segja landsskipulag sem einmitt tekur (Forseti hringir.) ákvörðunarréttinn frá sveitarfélögunum.