135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað alltaf gaman að því þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nær sér örlítið á strik í ræðustól. Það er líka mjög gaman að því þegar hv. þingmaður hefur áhyggjur af því hvort Samfylkingin standi sig vel eða illa í ákveðnum málum. Það er líka ánægjulegt þegar hv. þingmaður gerir sem mestar kröfur til Samfylkingarinnar vegna þess að það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmaður geri slíkt vegna þess að það er eðlilegt að gera kröfur til Samfylkingarinnar.

En það er eiginlega alveg nauðsynlegt þegar hv. þingmaður les texta og fer með hann að sjálfsögðu réttan — því að hann les texta yfirleitt rétt og vel — að átta sig þá á innihaldinu. Hv. þingmaður las texta þar sem sagði m.a. að Samfylkingin vildi „stuðla að“, og síðan kom ýmislegt í framhaldinu — vildi stuðla að. Það hefur ekkert breyst, Samfylkingin vill stuðla að.

Þá er spurningin og það er kannski lykilspurningin: Hvernig er staðið að því að stuðla að? Það eru auðvitað ýmsar leiðir til þess. Hv. þingmaður nálgast hins vegar mjög oft, eins og í þessu tilfelli, málin á afar þröngan hátt. Ef hv. þingmaður heldur að það sé eina leiðin til þess að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla að það sé sett í lög um leikskóla, eins og það frumvarp sem hér liggur fyrir, þá er það rangt hjá hv. þingmanni.

Við sem höfum mjög lengi aðhyllst sjálfsforræði sveitarfélaga teljum að sveitarfélögin sjálf eigi að ganga frjáls til samninga við ríkisvaldið um hvernig að slíku máli er staðið. Það er algjörlega út í hött að setja slíkt inn í slíkan lagabálk sem hér liggur fyrir ef ekki er búið að ganga frá því í fyrsta lagi hvernig að því skuli staðið og hvað það muni kosta og hvernig þeim samskiptum verður háttað á milli ríkis og sveitarfélaga, að skipta því. Þetta er eðlilegur vettvangur, samstarfsvettvangur á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna.

Ég veit ekki reyndar, frú forseti, hvort hv. þingmaður aðhyllist sjálfsforræði sveitarfélaganna í þessum efnum eða öðrum (Forseti hringir.) en það væri auðvitað fróðlegt að fá að heyra skoðanir hv. þingmanns á því.