135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sparar ekki einkunnagjöfina. Það er þvættingur og orðagjálfur sem aðrir segja en við skulum ekki mæla málflutning hv. þingmanns á sömu mælistikum.

Það er vissulega ánægjulegt að hv. þingmaður gerir þær kröfur til Samfylkingarinnar að hún standi við kosningastefnuskrá sína og það helst í gær, helst strax á fyrstu dögunum. Ég hef hins vegar grun um það, frú forseti, að hv. þingmanni bregði þegar listinn verður birtur yfir það hvað ríkisstjórnin hefur þegar gert og hversu mörg af kosningaloforðum Samfylkingarinnar hafa komist í verk á þessu fyrsta ári. Ég hugsa að hv. þingmaður, þegar hann fer yfir það, geti tekið undir það með mér að eiginlega sé það með ólíkindum hve mikið hefur áunnist á þessu eina ári.

Því það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, einungis eitt ár er að líða af fjórum á kjörtímabilinu. Engan bilbug er að finna á Samfylkingunni frekar en ríkisstjórninni að ganga til þeirra verka sem um hefur verið samið. Hv. þingmaður þarf því ekki að hafa verulegar áhyggjur af því að hann muni lenda í vandræðum í sams konar málflutning í lok kjörtímabilsins, það verður ekkert vandamál fyrir Samfylkinguna að leggja verk sín á borðið þá. Það er ég sannfærður um.

Það er hins vegar ljóst að ekki er nokkur leið að gera alla hluti á fyrsta ári. Kosningastefnuskrár einstakra flokka eru ekki — og hv. þingmaður ætti að vita það, hefur líklega samið nokkrar slíkar í gegnum tíðina — það sama og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar sem viðkomandi flokkur tekur hugsanlega þátt í. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar er að sjálfsögðu samstarfsverkefni þeirra flokka sem ríkisstjórnina mynda.

Ég er sannfærður um að ef hv. þingmaður, á raunsæjan hátt og án allra öfga, ber saman kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar og síðan stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þá verður hann hugsanlega helst leiður yfir því hversu miklum og stórum árangri Samfylkingin náði í gerð þess sáttmála.