135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:28]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að ákveðið mál hefur verið hér mest áberandi í umræðunni, þ.e. umræðan um gjaldfrjálsan leikskóla. Skýringin er sú að nokkrir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lítið um annað rætt. Auðvitað verður það málið sem mest er um rætt þegar þingmenn úr sama flokki koma hér hver af öðrum og halda nærri því samhljóða ræður.

Ég vona nú að hv. þingmenn þessa stjórnmálaflokks sem hér eiga eftir að tala reyni að víkka örlítið út umræðuna. Vissulega er hún mikilvæg, við erum að ræða hér um leikskólastigið og það er auðvitað afar mikilvægt skólastig.

Ég held þó að vegna þess að við ræðum síðar fleiri skólastig og viljum helst hafa til þess ágætan tíma og gera það á skikkanlegum tíma sólarhringsins að það mætti samræma örlítið málflutning innan stjórnmálaflokkanna þannig að ekki sé verið að endurtaka það sama. En hver flokkur verður að hafa sitt lag á því.

En ég vil segja við hv. þingmann, af því ég ætla ekki að endurtaka andsvör mín við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem ég gæti gert núna, að Samfylkingin er afar stolt af þeim skólafrumvörpum sem hér liggja fyrir. Þar hefur Samfylkingin komið málum sínum mjög vel fyrir borð. Að einfalda mál um gjaldfrjálsan leikskóla á þann hátt sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gera hér er auðvitað ekkert annað en sýndarmennska. Hv. þingmenn vita það nákvæmlega sjálfir að svona mál eru ekki keyrð áfram með þeim hætti sem lýst er af þeirra hálfu.

Það er eðlilegt samstarfsverkefni og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Sambandi ísl. sveitarfélaga, veit það mætavel hvernig samskiptin eru á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins, að ég tali nú ekki um hvernig við viljum að þau séu. Það er alveg klárt mál að sveitarfélög vilja ekki að sett séu íþyngjandi lög á (Forseti hringir.) þau án þess að um það sé samið við þau. Það er klárt mál og hv. þingmaður er mér örugglega sammála í þeim efnum.