135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:00]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyrði að ég og hv. þingmaður erum á margan hátt sammála um framtíðarstefnuna. Hvað varðar blikur með matinn er mikilvægt fyrir þingið að fara yfir þær breytingar sem liggja fyrir og vonandi verður því máli frestað á þessu þingi hvað matvælalöggjöf Evrópusambandsins varðar. Ég hef hins vegar orðið þess var með leikskólann og grunnskólann að þar eru gerðar miklar kröfur um gæði matvælanna. Ég minnist þess t.d. hvað ég varð glaður sem landbúnaðarráðherra að börnin sögðu mér gjarnan að lambakjötið á miðvikudögum í sósu væri það besta sem þau fengju alla vikuna. Þar var gott kjöt og góður fiskur og allt undir eftirliti færustu manna þannig að leikskólarnir og grunnskólarnir hljóta að gera miklar kröfur um gæði hráefnisins og ég vona að íslensk þjóð og íslenska þingið geri einnig miklar kröfur í þeim efnum.

Ég er sammála hv. þingmanni að ég álít að væri tekin upp lögbundin kennsluskylda fyrir fimm ára börn, sem ég held að séu mjög hæf til námsins og eigi mjög auðvelt með að læra marga hluti og sé kannski einhver besti aldur lífsins eins og í tungumálakennslu o.fl., þá eigi ekki að kljúfa þau frá leikskólanum, það eigi að vera hluti af leikskólanum, það styrkir leikskólana. Það er vont að vera að færa börn of mikið til á milli skóla. Ég held að leikskólinn með þær menntunarkröfur sem hér eru gerðar og hvernig hann hefur starfað sé fullfær um að taka við því verkefni ef það yrði ákveðið.